Leikmenn 18 ára landsliðs karla í handknattleik koma heim með silfurverðlaun frá Sparkassen Cup-handknattleiksmótinu í Merzig í Þýskalandi. Íslenska landsliðið tapaði fyrir þýska landsliðinu með þriggja marka mun, 31:28, í úrslitaleik í kvöld. Þetta var þriðja árið í röð sem lið þjóðanna mætast í úrslitaleik mótsins og í öll skiptin hefur þýska landsliðið haft betur. Þetta eru þar með þriðju silfurverðlaun Íslands í röð á Sparkassen Cup
Ísland var marki yfir í hálfleik, 17:16, en leikið var í 2×30 mínútur í úrslitaleiknum. Aðrir leikir mótsins stóðu yfir í 2×25 mínútur.
Íslensku piltarnir unnu fjóra leiki á mótinu og töpuðu einum.
Framan af í fyrri hálfleik var íslenska liðið með nokkra yfirburði, m.a. 9:4, áður en þýska liðið sneri vörn í sókn og skoraði átta mörk gegn fimm og minnkaði muninn í tvö mörk, 14:12. Leikurinn var í járnum fram að hálfleik þegar Ísland var með eins marks forskot, 17:16.
Þjóðverjar tóku fljótlega völdin í síðari hálfleik. Þeir náðu mest fimm marka forskoti, 25:20. Íslenska liðið lagði alls ekki árar í bát heldur minnkaði muninn í eitt mark, 29:28, þegar fjórða og hálf mínúta var til leiksloka. Nær komust íslensku piltarnir ekki.
Segja má að Þjóðverjum hafi tekist að hefna fyrir tapið fyrir íslenska liðinu á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Skopje í lok júlí, 28:25.
Sparkassen Cup-mótið er liður í undirbúningi fyrir Evrópumótið sem fram fer í sumar.
Mörk Íslands: Brynjar Narfi Arndal 9, Bjarki Snorrason 4, Patrekur Smári Arnarsson 4, Ómar Darri Sigurgeirsson 3, Kári Steinn Guðmundsson 2, Freyr Aronsson 2, Anton Frans Sigurðsson 1, Kristófer Tómas Gíslason 1, Matthías Dagur Þorsteinsson 1, Örn Kolur Kjartansson 1.
Varin skot: Anton Máni Francisco Heldersson 14, Sigurmundur Gísli Unnarsson 1.
Piltarnir eru farnir til Þýskalands
Öruggur sigur á Slóvenum í fyrsta leiknum í Merzig
Miklir yfirburðir og 12 marka sigur á Austurríki
Annar stórsigur í dag – undanúrslit í fyrramálið
Piltarnir mæta portúgalska landsliðinu í undanúrslitum
Stungu sér framúr á endasprettinum – leika um gullið í kvöld



