Ísraelska handknattleikssambandið hefur ákveðið að skipta um mann í brúnni á skútu karlalandsliðsins áður en að undankeppni Evrópumótsins hefst með leik við Íslendinga á Ásvöllum 12. október nk. Serbinn Dragan Djukic hefur tekið við þjálfun karlalandsliðsins af Oleg Boutenko sem látinn var taka pokann sinn eftir sex ára starf með liðið.
Djukic, sem stendur á sextugu, er enginn nýgræðingur í þjálfun. Segja má að Ísraelsmenn renni ekki alveg blint í sjóinn vegna þess að Djukic hefur áður stýrt karlalandsliði þeirra.
Djukic hefur víða komið við og var m.a. þjálfari ísraelska karlalandsins frá 2012 til 2015. Djukic fékk það erfiða verkefni að byggja upp breska karlalandsliðið fyrir Ólympíuleikana í Lundúnum 2012 og var við það ásamt öðrum störfum frá 2009. Síðast þjálfaði Djukic ungverska karlaliðið Tatabánya KC en hætti í sumar eftir eins árs starf.
Þegar litið er yfir þjálfaraferil Djukic á Wikipedia er óhætt að segja að hann hafi víða stungið við stafni síðan þjálfaraferillinn hófst hjá Zupa í Serbíu 1986. Auk fjölda félagsliða karla og kvenna og landsliða Bretlands og Ísrael má nefna landslið Sviss, Norður Makedóníu, Svartfjallalands og Jórdaníu auk starfa fyrir handknattleikssamband Georgíu.
Djukic er aðdáandi 3/2/1 varnarinnar eins og fleiri landar hans og nágrannar. Í hitteðfyrra gaf Djukic út bók þar sem sem 3/2/1 vörnin er krufin til mergjar.
handbolti.is nýtur ekki opinbers rekstrarstuðnings.
- Staðfest að Hafsteinn Óli er í HM-hópnum
- Tíu marka sigur á Hollendingum – undanúrslit í fyrramálið
- Íslandsmeistararnir eru afrekslið Hafnarfjarðar
- Piltarnir eru komnir í undanúrslit í Merzig
- Mest lesið 2 ”24: Ítrekunaráhrif, bylmingsskot, Færeyingar, tennur, töfralausn