Ítalir hafa fram til þessa ekki verið hátt skrifaðir í evrópskum handknattleik en svo virðist sem þeir séu að færa sig upp á skaftið. Yngri landsliðin hafa sýnt á tíðum ágæta frammistöðu á Evrópumótunum síðustu sumur. Hvort það er að skila sér um þessar mundir í öflugra A-landsliði er ekki hægt að útiloka. Alltént þá er ítalska landsliðið í góðri stöðu í umspili um sæti á HM eftir sex marka sigur á landsliði Svartfellinga í Conversano á suðuraustur hluta Ítalíu í dag, 32:26.
Eiga verk fyrir höndum
Svartfellingar voru í mestu vandræðum frá upphafi til enda í viðureigninni og verða að bíta í skjaldarrendur fyrir heimaleikinn í Podgorica á sunnudaginn ef þeir ekki ætla ekki að sitja eftir með sárt ennið að umspilinu loknu. Þegar er farið að hitna undir Vlado Sola landsliðsþjálfara sem nýverið skrifaði undir nýjan samning eftir þátttökuna á EM í janúar þar sem Svartfellingar lögðu m.a. Serba. Nokkuð sem þeir lifa á í minningunni um langa hríð.
Skoraði 13 mörk
Umberto Bornzo fór á kostum í ítalska liðinu og skoraði 13 mörk. Andra Parinsini var næstur með sex mörk. Vasilije Kaludjerovic var markahæstu Svartfellinga með sex mörk og þeir Branko Vujovic og Vuko Borozan skoruðu fjórum sinnum hvor.
Nýr landsliðsþjálfari
Svisslendingar, með nýjan landsliðsþjálfara í brúnni, Andy Schmid, sýndu mikla seiglu þegar þeir lögðu Slóvena í Koper í Slóveníu í fyrri umspilsleiknum um HM sæti í dag, 27:26. Miklar sveiflur voru í leiknum, ekki síst í síðari hálfleik. Slóvenar voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 16:12, en voru komnir þremur mörkum undir rétt fyrir miðjan síðari hálfleik, 24:21. Þá tókst þeim að skora fimm mörk í röð áður en svissnesku leikmennirnir bitu frá sér á allra síðustu mínútunum og unnu. Síðari leikurinn fer fram í Winterthur á sunnudaginn.
Manuel Zehnder var atkvæðamestur hjá Sviss með átta mörk. Lenny Rubin gerði sex mörk. Aleks Vlah skoraði fimm fyrir slóvenska landsliðið.
Pedro Portela skoraði sjö mörk og var markahæstur hjá portúgalska landsliðinu sem vann stórsigur á Bosníu, 29:19, í Guimaraes í Portúgal í fyrri umspilsleiknum um HM-sæti. Rui Silva næstur með fimm mörk.
Tap í Gdansk
Pólverjar töpuðu óvænt fyrir Slóvökum, 29:28, í hafnarborginni Gdansk þar sem Lech Wałęsa og félagar í Samstöðu brutust undan kúgun kommúnismans fyrir meira en fjórum áratugum. Pólverjar eiga erfiðan leik fyrir höndum í Topolcany í Slóvakíu á sunnudaginn.
Kamil Syprzak skoraði 11 mörk fyrir pólska landsliðið og jafnmörg mörk skoraði Juraj Briatka fyrir Slóvaka.
Öflugir Ungverjar
Ungverjar sýndu styrk sinn í síðari hálfleik gegn Litáum og unnu með sjö marka mun, 33:26, í Vilnius. Bence Imre skoraði 11 mörk fyrir Ungverja sem eru komnir með annan fótinn inn á heimsmeistaramótið í janúar.
Austurríkismenn standa vel að vígi
Austurríkismenn standa einnig vel að vígi eftir tveggja marka sigur á Georgíumönnum, 27:25, í Tbilisi. Sebstian Frimmel skoraði átta mörk fyrir austurríska liðið. Stórleikur Zurab Tsintsadze dugði ekki til. Hann varði 20 skot í marki Georgíu. Constantin Möstl, sem reyndist leikmönnum íslenska landsliðsins óþægur ljár í þúfu í viðureign Íslands og Austurríkis á EM í janúar, stóð einnig fyrir sínu, varði 15 skot, í íþróttahöllinni í Tbilisi.
Giorgi Tskhovrebadze skoraði átta mörk fyrir landslið Georgíu sem verður andstæðingur íslenska landsliðsins í riðlakeppni EM sem hefst í nóvember.
Tite Kalandadze, sem lék hér á landi með ÍBV og Stjörnunni um árabil í upphafi aldarinnar, er landsliðsþjálfari Georgíu en liðið gerði það gott á EM í janúar þegar það tók í fyrsta sinn þátt í lokakeppni stórmóts.
Tíu leikir síðari umferðar umspila HM karla fara fram á sunnudaginn. Aðeins síðari viðureign Eistlands og Íslands er á dagskrá á laugardag.
Umspil HM karla 2025 – úrslit leikja