- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Íþróttir eru ekki alltaf sanngjarnar – gremjuleg niðurstaða og rangur dómur

Heimir Ríkarðsson annar þjálfara 18 ára landsliðsins sem varð í fjórða sæti á EM í dag. Mynd/MKJ
- Auglýsing -

„Íþróttir eru ekki alltaf sanngjarnar, þetta er gremjuleg niðurstaða,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfari 18 ára landsliðsins í handknattleik karla þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans eftir að íslenska liðið tapað fyrir Ungverjum eftir framlengdan leik um bronsið á Evrópumótinu í Podgorica í Svartfjallalandi í dag, 36:34. Fjórða sætið kemur þar með í hlut íslenska landsliðsins, besti árangur í þessum aldursflokki síðan að silfrið vannst fyrir sex árum.

Frábær árangur

„Strákarnir áttu svo sannarlega skilið að vinna leikinn og fara heim með bronsið. Þeir hafa veirð framúrskarandi á þessu móti. Frábær árangur hjá okkur að leika um þriðja sætið en því miður þá situr það svolítið í manni að hafna í fjórða sæti. Þegar frá líður og við jöfnum okkur af vonbrigðunum þá verðum við vonandi sáttari,“ sagði Heimir og benti á að fyrir aftan íslenska liðið væru frábær landslið eins og það þýska, serbneska, spænska, portúgalska og franska svo dæmi sé tekið.

„Það er leiðinlegt að svona tap skyggi á gleði strákana. Þeir eiga það svo sannarlega skilið að vera glaðir með þennan árangur,“ sagði Heimir.

Inn vildi tuðran ekki

„Við skoruðum ekki á síðustu mínútunum þótt við fengjum færin til þess. Því miður þá lá það ekki hjá okkur. Inn vildi tuðran ekki. Á móti fengum við á okkur mörk sem við hefðum átt að koma í veg fyrir,“ sagði Heimir um lokakaflann en íslenska liðið var fjórum mörkum yfir, 31:27, þegar sex mínútur voru til leiksloka en staðan að loknum hefðbundnum leiktíma var 32:32. Ungverjar skoruðu jöfnunarmarkið þegar þrjár sekúndur voru eftir af 60 mínútna leiktíma.

Rangur dómur

Heimir segir það standa eftir að rangur dómur þegar, Degi Árna Heimissyni, var sýnt rautt spjald á 44. mínútu, hafi reynst dýr þegar upp var staðið og hreinlega kostað íslenska liðið sigurinn. Það sást vel á lokakaflanum þegar á reyndi.

Dómarar verða að vera vissir

„Dómarar verða að vera alveg vissir þegar þeir taka svona stóra ákvörðun að sýna manni rautt spjald í úrslitaleik. Það er ekki hægt að dæma eftir því sem menn halda,“ sagði Heimir og var afar óhress með þessa afdrifaríku ákvörðun gríska dómaraparsins sem hann sagði hafa komist að öðru leyti nokkuð vel frá leiknum. Heimir sagðist hafa rætt við dómarana eftir leikinn og á því samtali var ljóst að þeir voru ekki alveg vissir í sinni sök.

„Við hefðum unnið leikinn ef þeir hefðu ekki lyft rauða spjaldinu. Það kostaði okkur bronsið,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfari U18 ára landsliðsins þar sem hann var í óða önn að pakka niður föggum sínum. Brottför verður frá hótelinu í Podgorica um tvöleytið í nótt að íslenskum tíma.

EMU18 karla: Leikir, úrslit og staðan, milliriðlar og sætisleikir

Grátlegt tap eftir framlengingu í bronsleiknum

Yngri landslið

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -