Jafntefli Norðmanna og Portúgala, 35:35, í 3. umferð millriðils eitt á Evrópumóti karla í handknattleik í dag kom hvorugu liðinu að verulegu gagni í kapphlaupinu um sæti í undanúrslitum mótsins og e.t.v. heldur ekki í baráttu um þriðja sæti riðilsins. Sem stendur þá virðist allt benda til þess að Danmörk, Frakkland og Þýskaland hafni í þremur efstu sætum riðilsins.
Simen Lyse jafnaði metin fyrir Noreg þegar rúm mínúta var til leiksloka, 35:35. Eftir það voru netmöskvar markanna sparaðir.
Noregur var marki yfir í hálfleik, 18:17, og komst mest þremur mörkum yfir í síðari hálfleik, 23:20, en tókst ekki að halda forskotinu gegn baráttuglöðum leikmönnum portúgalska landsliðsins. Rui Silva kom Portúgal tveimur mörkum yfir þegar liðlega fjórar mínútur voru til leiksloka. Jonas Wille og lærisveinar í norska landsliðinu lögðu ekki árar í bát fyrr en þeir höfðu jafnaði metin. Lengra komust þeir ekki, ekkert frekar en Portúgalar.
Luís Frade skoraði 11 mörk fyrir portúgalska liðið. Rui Silva var næstur með sex mörk. Costa-bræðurnir Martím og Francisco, skoruðu fjögur mörk hvor. Francisco Costa er meiddur og beitti sér lítið í leiknum fyrr en komið var fram í síðari hálfleik.
August Pedersen var atkvæðamestur Norðmanna eins og stundum áður. Hann skoraði í 10 skipti og Patrick Andersson skoraði níu sinnum.
Mikilvægir leikir í kvöld
Frakkar, Danir og Þjóðverjar hafa fjögur stig hvert. Frakkar mæta Spánverjum klukkan 17 í Jyske Bank Boxen. Danmörk og Þýskaland leiða saman hesta sína klukkan 19.30. Úrslit leiksins munu væntanlega skera úr um hvor þjóðanna kemst í undanúrslit.
Portúgal og Noregur eru með þrjú stig en Spánverjar reka lestina án stiga.

