Íslenska landsliðið krækti í jafntefli í síðari viðureign sinni við Slóvena í umspili um sæti á heimsmeistaramótinu í handknattleik kvenna, 21:21, í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í kvöld. Það dugði skammt eftir tíu marka tap í fyrri leiknum og er Ísland úr leik eftir samtals, 45:35, í tveimur leikjum. Slóvenar voru marki yfir í hálfleik, 9:8. Þeir virtust hinsvegar ekki vera á fullu gasi í leiknum. Engu að síður var allt annað sjá til leiks íslenska landsliðsins í kvöld en í Ljubljana á laugardaginn, ekki síst í síðari hálfleik þegar varnar og sóknarleikur var oft og tíðum ágætur.
Fyrri hálfleikur var fremur slakur. Slóvenska liðið var ekki nema á hálfri ferð. Greinilegt var að það ætlaði sér ekki að gera meira en þurfti. Baráttuhugur var í leikmönnum íslenska landsliðsins. Varnarleikurinn var góður og markvarslan einnig hjá Elínu Jónu. Illa gekk hinsvegar að skora og eftir að aðeins tíu mínútur var búið að skora þrisvar, þar af voru tvö markanna íslensk.
Áfram mallaði leikurinn. Sóknarleikurinn var hausverkur íslenska liðsins út hálfleikinn. Amra Pandzic hélt uppteknum hætti frá leiknum í Ljubljana og varði vel og m.a. nokkur opin færi. Slóvenar skoruðu þrjú síðustu mörk hálfleiksins og voru marki yfir þegar gengið var til búningsherbergja í stöðunni, 9:8.
Síðari hálfleikur var mun betri af hálfu íslenska liðsins, ekki síst var sóknarleikurinn betur heppnaður og mistökin færri. Varnarleikurinn var skemmtilega ákveðinn og leikinn af mikill ástríðu sem gaman var á að horfa. Anna Úrsúla Guðmundsdóttir lék þar stærsta hlutverkið. Hún lagði sig alla fram og smitaði út til samherja sinna. Oft gekk hann vel en þegar hann brást opnaðist vörnin illa og Elín Jóna Þorsteinsdóttir markvörður stóð ein eftir.
Slóvenar reyndu að bæta aðeins í leik sinn í síðari hálfleik en mættu þá afar ákveðnu íslensku liði. Slóvenar voru með tíu marka forskot áður en leikurinn hófst. Þeim var í mun að tapa ekki svo þeir gerðu sig vel ánægða með jafnteflið sem Ragnheiður Júlíusdóttir tryggði íslenska landsliðinu er hún skoraði úr vítakasti á síðustu sekúndu.
Mörk Íslands: Ragnheiður Júlíusdóttir 5/2, Sigríður Hauksdóttir 4, Lovísa Thompson 4, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 3, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 2, Birna Berg Haraldsdóttir 1, Helena Rut Örvarsdóttir 1, Thea Imani Sturludóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 8.