- Auglýsing -
Jakob Lárusson mátti horfa upp á lið sitt, Kyndil, steinliggja með 16 marka mun fyrir H71 i meistarakeppninni í færeyska kvennahandboltanum í dag, 38:22. Meistarar H71 voru með sex marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 18:12. Leikurinn fór fram í Hoyvíkurhöllinni.
Jakob tók við þjálfun kvennaliðs Kyndils í sumar og virðist eiga talsvert starf fyrir höndum við að koma Kyndli í allra fremstu röð ef marka má úrslit viðureignarinnar í dag. Jakob fékk áminningu í leiknum eftir því sem fram kemur á leikskýrslu.
Meðal leikmanna Kyndils er Turíð Arge sem lék með Haukum fyrir fáeinum árum. Hún varð markahæst með sjö mörk.
Íslendingaslagur eftir viku
Keppni hefst í úrvalsdeild kvenna í Færeyjum eftir viku. Kyndill sækir þá EB heim í Höllina á Eiði. Það verður um sannkallaðan Íslendingaslag að ræða þar sem þjálfarar beggja liða eru íslenskir. Kristinn Guðmundsson stýrir liði EB annað keppnistímabilið í röð en liðið var nýliði í úrvalsdeildinni á síðasta keppnistímabili.
- Auglýsing -