„Pólverjar hafa á að skipa hávöxnum leikmönnum, eru með stóra og þunga línumenn og víst er að þeir leika á annan hátt en Ítalirnir. Segja má að þeir fari alveg í hina áttina, miðað við ítalska liðið,“ segir Janus Daði Smárason landsliðsmaður í handknattleik spurður um verkefni dagsins, leikinn við Pólverja á Evrópumótinu í handknattleik.
Flautað verður til leiks klukkan 17 í Kristianstad Arena. Með sigri innsiglar íslenska liðið sér sæti í milliriðlakeppninni sem hefst í Malmö síðar í vikunni. Að sama skapi þurfa Pólverjar á sigri að halda svo þeir eygi von um sæti í milliriðli.
Búum okkur undir hörkuleik
„Ég hlakka til að mæta Pólverjunum. Við búum okkur undir hörkuleik,“ segir Janus Daði og minnir að pólska landsliðið hafi aðeins leikið fáeina leiki undir stjórn Jota Gonzalez. Þess vegna sé ekki víst að hann nái að setja mark sitt mjög á leik landsliðsins. „Það hafa orðið ákveðnar breytingar sem við verðum að vera búnir undir auk þess sem víst er að þeir draga fram einhver trix um miðjan leik sem við verðum að vera búnir undir, það er týpiskt spænskt,“ segir Janus Daði.
Gonzalez tók við þjálfun landsliðsins eftir HM fyrir ári. Spilin voru stokkuð upp eftir HM þegar Pólverjar léku um forsetabikarinn og þrátt fyrir að hafa unnið bikarinn var 25. sæti langt frá væntingum forsvarsmanna pólska handknattleikssambandsins.



