Janus Daði Smárason, landsliðsmaður í handknattleik, hefur skrifað undir eins árs samning við Evrópumeistara SC Magdeburg. Tekur samningurinn þegar gildi og hefur Selfyssingingurinn þar með sagt skilið við norska meistaraliðið Kolstad sem á í mestu fjárhagskröggum um þessar mundir.
Greint er frá komu Janusar Daða á heimasíðu SC Magdeburg í morgun. Koma hans til félagsins hefur legið í loftinu síðan á sunnudaginn að orðrómur kveiknaði um vistaskiptin.
Frá því segir m.a. í tilkynningunni frá Magdeburg að félagið hafi bætt við sig tveimur leikmönnum, Janusi Daða og Piotr Chrapkowski, vegna meiðsla sem eru á meðal leikmanna liðsins. Nauðsynlegt hafi verið að styrkja sóknar- og varnarleikinn. Á því sviði er Chrapkowski öllum hnútum kunnugur.
Janus Daði á hlaupa í skarðið fyrir Gísla Þorgeir Kristjánsson sem verður frá keppni fram í janúar, eins og sakir standa. Chrapkowski hefur leikið með Magdeburg en vegna aðstæðna var ári bætt við samning hans.
Varð að grípa í taumana
Bennet Wiegert þjálfari SC Magdeburg segir í tilkynningu félagsins að nauðsynlegt hafi verið að grípa í taumana og styrkja liðið vegna fjarveru Gísla Þorgeirs mánuðum saman vegna axlarmeiðsla og aðgerðar.
Janus Daði sé leikmaður með alþjóðlega reynslu og hafi auk þess leikið í Þýskalandi fyrir utan að geta með hraði fallið inn í leikskipulag Magdeburgarliðsins. Til viðbótar hafi verið mögulegt að semja við hann með litlum fyrirvara.
Kunnugur í Þýskalandi
Janus Daði er 28 ára gamall. Hann þekkir vel til í Þýskalandi eftir að hafa leikið með Göppingen í tvö ár, frá 2020 til 2022. Janus Daði var þar áður í þrjú ár hjá Aalborg Håndbold í Danmörku. Til Danmerkur kom hann frá Haukum hvar hann var í hálft annað keppnistímabil.
Alls eru A-landsleikir Janusar Daða orðnir 69.