- Auglýsing -
Tveir leikmenn íslenska landsliðsins til viðbótar greindust með covid19 við skimun í morgun. Um er að ræða Arnar Freyr Arnarsson og Janus Daða Smárason eftir því sem fram kemur í tilkynningu sem var að berast frá Handknattleikssambandi Íslands fyrir örfáum mínútum.
„Í hraðprófi sem tekið var í hádeginu í dag greindust þeir Arnar Freyr Arnarsson og Janus Daði Smárason með jákvæð próf og er beðið eftir niðurstöðu PCR prófs.
PCR próf liðsins í gærkvöldi voru öll neikvæð er frá eru taldir þeir 7 sem voru í einangrun.
Átta leikmenn og einn starfsmaður liðsins hafa þá greinst síðustu daga og eru í einangrun,” segir í tilkynningunni.
Leikmennirnir átta eru: Arnar Freyr Arnarsson, Aron Pálmarsson, Bjarki Már Elísson, Björgvin Páll Gústavsson, Elvar Örn Jónsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Janus Daði Smárason og Ólafur Andrés Guðmundsson auk Jóns Birgis Guðmundssonar, annars sjúkraþjálfara landsliðsins.
Í ljósi tíðinda dagsins verða 14 leikmenn á skýrslu í dag eins og í leiknum við Dani. Í gær bættust Magnús Óli Magnússon og Vignir Stefánsson í hópinn.
Fastlega má reikna með að fleiri leikmenn verði kallaðir inn í hópinn í dag sem geti komið til Búdapest á morgun.
- Auglýsing -