Grótta heldur í vonina um sæti í úrslitakeppninni í Olísdeild karla eftir ævintýrlegan sigur á Haukum í furðulegum leik með minnistæðum lokasekúndum á Ásvöllum í kvöld, 28:27. Birgir Steinn Jónsson skoraði sigurmarkið á síðustu sekúndum þegar flestir héldu að hann væri að jafna metin.
Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði af línu þegar sex sekúndur voru til leiksloka. Leit út fyrir að hann væri að tryggja Haukum sigur. Svo reyndist ekki vera. Gróttumenn þustu fram völlinn og Birgir Steinn skoraði 28. mark Gróttu.
Í ljós kom að um sigurmark var að ræða vegna þess að dæmd var lína á Stefán Rafn, leikmann Hauka, sem steig á línu þegar hann leysti inn úr horninu á leið sinn að því að fá línusendinguna frá Guðmundi Braga. Ekki voru allir á eitt sáttir en við þetta stóð.
Grótta hefur þar með 15 stig í níunda sæti þegar þrjár umferðir eru eftir. Haukar eru með 17 stig í áttunda sæti. Þar með á Grótta ennþá möguleika á að öngla í áttunda og síðasta sæti inn í úrslitakeppnina.
Haukar eiga eftir: Val á útivelli, ÍBV á útivelli, Hörð á heimavelli.
Grótta á eftir: ÍBV á heimavelli, Hörð á útivelli, KA á heimavelli.
Ef Haukar og Grótta verða jöfn að stigum þá stendur Grótta betur að vígi í innbyrðisleikjum. Grótta hefur unnið báða.
Staðan í Olísdeild karla.
Haukar voru ekki með á nótunum í fyrri hálfleik og máttu þakka fyrir að vera fimm mörkum undir í hálfleik, 13:18. Þeir hertu upp hugann í síðari hálfleik og náðu að jafna metin og komast yfir í tvígang.
Gróttumenn vöknuðu ekki fyrr en 15 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik þegar Einar Baldvin Baldvinsson hafði skorað eina mark þeirra.
Slakur leikur á Ásvöllum en eftirminnilegar lokasekúndur. Úrslit leiksins halda opinni baráttunni um áttunda sætið.
Mörk Hauka: Guðmundur Bragi Ástþórsson 7/2, Geir Guðmundsson 3, Andri Már Rúnarsson 3, Kristófer Máni Jónasson 3, Heimir Óli Heimisson 3, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Stefán Rafn Sigurmannsson 2, Tjörvi Þorgeirsson 1, Adam Haukur Baumruk 1, Þráinn Orri Jónsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 4/2, 16,7% – Matas Pranckevicus 27,3%.
Mörk Gróttu: Birgir Steinn Jónsson 9/1, Jakob Ingi Stefánsson 5, Þorgeir Bjarki Davíðsson 3, Hannes Grimm 3, Theis Koch Søndergard 2, Lúðvík Thorberg Arnkelsson 2, Daníel Örn Griffin 1, Einar Baldvin Baldvinsson 1, Elvar Otri Hjálmarsson 1, Ágúst Emil Grétarsson 1.
Varin skot: Daníel Andri Valtýsson 7, 29,2% – Einar Baldvin Baldvinsson 3, 23,1%.
Staðan í Olísdeild karla.
Handbolti.is fylgdist með leikjum kvöldsins á leikjavakt.