Haukar skoruðu tvö síðustu mörk leiksins við Fram á Ásvöllum í dag og náðu þar með öðru stigi úr viðureign liðanna í þriðju umferð Olísdeildar kvenna, 27:27. Jóhanna Margrét Sigurðarsdóttir skoraði jöfnunarmarkið þegar þrjár sekúndur voru til leiksloka. Nokkrum sekúndum áður hafði Sara Sif Helgadóttir varið skot frá Ölfu Brá Oddsdóttur Hagalín hinum megin vallarins.
Staðan var jöfn í hálfleik, 13:13, eftir að Rakel Oddný Guðmundsdóttir jafnaði metin á síðustu sekúndu eftir vel útfærða sókn. Rakel Oddný minnkaði ennfremur muninn fyrir Hauka í 27:28 þegar rúm mínúta var til leiksloka.
Fram og Haukar eru jöfn að stigum, hafa þrjú stig hvort, í fjórða til fimmta sæti.
Fram var með frumkvæðið í jöfnum fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik tók Fram-liðið hinsvegar afgerandi forystu, 2 til 3 mörk lengst af eða allt þangað til á lokamínútunum tveimur.
Mörk Hauka: Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 9/3, Embla Steindórsdóttir 7, Thelma Melsted Björgvinsdóttir 4, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 3, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 1, Alexandra Líf Arnarsdóttir 1, Inga Dís Jóhannsdóttir 1, Ragnheiður Ragnarsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 15/1, 35,7%.
Mörk Fram: Harpa María Friðgeirsdóttir 6, Katrín Anna Ásmundsdóttir 5/1, Valgerður Arnalds 4, Hulda Dagsdóttir 372, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 3, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 2, Kristrún Steinþórsdóttir 1, Hildur Lilja Jónsdóttir 1, Ásdís Guðmundsdóttir 1, Sóldís Rós Ragnarsdóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 11/1, 31,4% – Arna Sif Jónsdóttir 2/1, 40%.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.