Jóhanna Margrét Sigurðardóttir átti frábæran leik þegar lið hennar, Skara HF, innsiglaði sæti í 16-liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar í dag með sex marka sigri á Hammarby, 40:34, í Stokkhólmi i síðustu umferð 7. riðils keppninnar. Hammarby var marki yfir í hálfleik en féll allur ketill í eld í síðari hálfleik.
Jóhanna Margrét skoraði sjö mörk og var næst markahæst liðsmanna Skara HF. Aldís Ásta Heimisdóttir og Katrín Tinna Jensdóttir voru ekki í leikmannahópi Skara-liðsins að þessu sinni.
Tognaði á ökkla
Aldís Ásta tognaði á ökkla í síðasta leik. Hún sagði við handbolta.is í dag að vonir standi til að hún verði leikfær í næsta leik Skara HF sem verður á heimavelli gegn VästeråsIrsta HF í upphafsumferð sænsku úrvalsdeildarinnar á fimmtudagskvöld.
Hallby HK fer einnig áfram úr 7. riðli en leikmenn Hammarby og Torslanda sitja eftir með sárt ennið.
Berta Rut er meidd
Berta Rut Harðardóttir missti af öðrum leiknum í röð með Kristianstad í dag þegar liðið vann Ystads IF HF örugglega á heimavelli, 35:24. Meiðsli hennar eru ekki alvarleg, eftir því sem Berta Rut tjáði handbolta.is í skilaboðum í dag.
Kristianstad vann allar þrjár viðureignir sínar í 2. riðli bikarkeppninnar og heldur áfram í 16-liða úrslit ásamt Höörs HK H 65.
Vilborg og samherjar eru úr leik
Vilborg Pétursdóttir fyrrverandi leikmaður Hauka og hennar samherjar í AIK frá Stokkhólmi komust ekki í 16-liða úrslit. AIK hafnaði í þriðja sæti 8. riðils keppninnar með eitt stig í þremur leikjum.
Síðasti leikur AIK var á fimmtudaginn gegn Skövde HK og tapaðist, 34:21. Vilborg skoraði þrjú mörk í leiknum. Vilborg skoraði einnig þrjú mörk í jafntefli við Hellton, 25:25, á dögunum. Hún tók ekki þátt í fyrsta leik AIK í riðlakeppninni.
AIK leikur í næst efstu deild sænska handknattleiksins þegar flautað verður til leiks síðar í þessum mánuði.