- Auglýsing -
Jóhannes Berg Andrason var valinn í úrvalslið 5. umferðar dönsku úrvalsdeildarinnar eftir frábæran leik með TTH Holstebro gegn meisturum Aalborg Håndbold í Álaborg á sunnudaginn.
Úrvalsliðið er tekið saman af stjórnendum deildarkeppninnar. Íslendingar eru ekki á hverjum degi í úrvalsliði umferðarinnar í dönsku úrvalsdeildinni.
Jóhannes Berg, sem kom til TTH Holstebro frá FH í sumar, lét til sín taka í leiknum, skoraði fimm mörk í sex skotum og átti þrjár stoðsendingar. Einnig var hann fastur fyrir í vörninni og var vikið af leikvelli í tvígang í tvær mínútur. Jóhannes Berg fékk 4,78 í framlagsstig sem reiknuð eru út samkvæmt frammistöðu leikmanna.
