Handknattleikssamband Íslands hefur ráðið Jón Gunnlaug Viggósson í starf íþróttastjóra sambandsins. Hann hefur störf í september.
Jón Gunnlaugur er 41 árs gamall, með BSc í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík og MSc gráðu frá ULPGC í samstarfi við íþróttaháskólann í Köln. Hann er með EHF master Coach og master Coach PRO þjálfararéttindi frá Handknattleikssambandi Evrópu.
Jón Gunnlaugur hefur undanfarin 20 ár stundað handknattleiksþjálfun, þar af meistaraflokksþjálfun síðastliðin 14 ár en nýverið lét hann af störfum sem aðalþjálfari meistaraflokks karla hjá handknattleiksdeild Víkings.
Í tilkynningu HSÍ segir að meðal verkefna nýráðins Íþróttastjóra HSÍ sé yfirumsjón með íþrótta- og afreksmálum sambandsins ásamt yngri landsliðum Íslands. Umsjón með fræðslumálum HSÍ þar með talið menntun handknattleiksþjálfara og útbreiðslu íþróttarinnar. Einnig vinnur íþróttastjóri HSÍ í náinni teymisvinnu með þjálfurum A-landsliðs karla og kvenna við gerð og eftirfylgni á afreksstefnu sambandsins og þeim verkefnum sem fylgja A-landsliðunum.
Gunnar Magnússon var síðasti íþróttastjóri HSÍ en lét af störfum í kringum síðustu áramót.