Jón Halldórsson formaður handknattleiksdeildar Vals hefur ákveðið að gefa kost á sér sem næsti formaður Handknattleikssambands Íslands, HSÍ. Hann tilkynnti í morgun á Facebook-síðu sinni að hann gefi kost á sér til formennsku á þingi HSÍ sem fram fer 5. apríl.
Jón er þrautreyndur innan handknattleikshreyfingarinnar og hefur stýrt handknattleikdeild Vals undanfarin ár og um langt árabil setið í stjórn deildarinnar.
Jón er sá fyrsti sem lýsir yfir framboði til formanns HSÍ eftir að
Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ síðustu 12 ár tilkynnti á fimmtudaginn að hann gæfi ekki kost á sér til endurkjörs á komandi ársþingi.
Formaður HSÍ er kjörinn til tveggja ára í senn.
Hægt að komast lengra
„Eftir að hafa fengið hvatningu fjölda fólks innan og utan hreyfingarinnar, með allan minn áhuga, metnað og trú á að hægt sé að koma íslenskum handknattleik enn lengra, hef ég ákveðið að bjóða mig fram til formanns Handknattleikssambands Íslands,“ segir Jón m.a. í tilkynningu sinni.
„Í gegnum árin hefur verið unnið mikið og gott starf hjá Handknattleikssambandinu og því fólki sem þar hefur staðið í stafni og lagt góðan grunn sem hægt er að byggja ofan á. Það er eitthvað sem við eigum að vera þakklát fyrir.
Það eru allskyns tækifæri til þess að gera enn betur og við verðum að nýta öll þau tækifæri. Grunnurinn að því er öflugt handknattleikssamband sem leitt er áfram af einstaklingum með ástríðu og faglegan metnað sem vilja gera vel. Þetta er hópur sem ég vil leiða,“ segir Jón ennfremur og bætir við:
„Ég og þau sem að þessu framboði standa höfum nú þegar rætt við einstaklinga sem ætla að stíga fram og leggja sitt á vogarskálarnar í mismunandi nefndum þar sem hver og einn fær metnaðarfull markmið þar sem sérfærðiþekking þeirra fær að njóta sín til þess að koma íslenskum handknattleik enn hærra.“
Sjá einnig: Ásgeir gefur kost á sér til varaformennsku HSÍ