- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

KA er félag sem á heima í topp sex í deildinni

Halldór Stefán Haraldsson hefur tekið við þjálfun karlaliðs KA. Mynd/KA
- Auglýsing -

„Við hófum æfingar 17. júlí. Við finnum það vel að strákarnir eru orðnir þyrstir í að hefja leik, enda langt síðan þeir léku síðast,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA við handbolta.is spurður um tímabilið framundan.

Halldór Stefán tók við þjálfun KA í sumar eftir að hafa búið í sjö ár í Volda í Noregi og þjálfað kvennalið félagsins með frábærum árangri. Leiddi hann uppbyggingastarf sem lauk með að Volda lék í fyrsta sinn í úrvalsdeildinni á síðasta vetri.


Halldór Stefán er fluttur heim með fjölskyldu sinni og hefur tekið til óspilltra málanna hjá KA sem um leið verður frumraun hans í þjálfun meistaraflokks karla í efstu deild hér á landi. Spurður um hvort miklar breytingar verði á leik liðsins undir hans stjórn svaraði Halldór Stefán.

Patrekur Stefánsson verður í eldlínunni með KA á næstu leiktíð. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Mikilvægt að halda áfram

„Það verða einhverjar breytingar. Engu að síður finnst mér mikilvægt að halda áfram þeirri vegferð sem félagið hefur verið á. Þrátt fyrir að síðasta tímabil hafi verið í þyngri kantinum þá má ekki gleyma því að KA fór í bikarúrslit tímabilið á undan. Margir ungir leikmenn fengu á sama tíma sína eldskírn undir stjórn Jónatans [Þórs Magnússonar]. Þessir ungu leikmenn verða árinu eldri og reynslunni ríkari á komandi keppnistímabili. Ef menn skoða söguna þá er KA félag sem á heima í topp sex í deildinni. Hvort við verðum þar í ár eða ekki verður svo bara að koma í ljós,“ sagði Halldór Stefán.

Komnir:
Ott Varik frá HC Viljandi til KA.
Nicolai Horntvedt Kristensen frá Nøtterøy til KA.
Jóhann Geir Sævarsson, til baka úr láni frá Þór.
Farnir:
Gauti Gunnarsson frá KA til ÍBV.
Allan Norðberg frá KA til Vals.
Nicholas Satchwell frá KA til Viking TIF.
Dagur Gautason frá KA til ØIF Arendal.

Eins og sjá má hér fyrir ofan hafa fjórir leikmenn yfirgefið KA frá síðustu leiktíð og þrír bæst í hópinn. Telur Halldór Stefán að þörf verði á frekari styrkingu liðsins, ekki síst í ljósi þess að basl var á KA á síðustu leiktíð og það ekki langt frá að lenda í hremmingum fallbaráttunnar.

Opnir fyrir styrkingum

„Við erum alltaf opnir fyrir styrkingum en þær eru vandmeðfarnar þegar mikið er af efnivið í félaginu. Það þarf að vera leikmaður sem að virkilega styrkir liðið ef svo á að vera. Það er engu að síður augljóst að nokkur skörð eru hogginn í leikmannahópinn frá síðasta leiktímabili. Engu að síður er ágætis breidd í útilínunni. Mikið var um meiðsli á síðasta tímabili. Ef okkur tekst að að halda hópnum nokkuð heilum þá verður samkeppni um flestar stöður. Við viljum hafa þetta þannig að þessir yngri sjái möguleikan en fái hann ekki fríkeypis,“ sagði Halldór Stefán ákveðinn og bætir við.

Flott markavarðateymi

„Nicolai Kristensen er til dæmis ungur og efnilegur markmaður frá Noregi sem á eftir að mynda flott markvarðarteymi með Bruno Bernat. Nicolai er öðruvísi markmaður en Bruno þannig að það gefur okkur ákveðna möguleika. Svo má ekki gleyma því að við eigum Óskar Þórarinsson sem er búinn að vera að gera það gott með 2006 landsliðinu í sumar. Þannig við erum ágætlega staddir í þessari stöðu og ætlum að veðja á ungt lið í vetur.“

Einar Rafn Eiðsson var markahæstur í Olísdeildinni á síðustu leiktíð. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Guðlaugur áfram til aðstoðar

Eins og á síðasta tímabili þá verður Guðlaugur Arnarsson hægri hönd þjálfara. Guðlaugur er margreyndur, jafnt sem leikmaður og þjálfari. Guðlaugur var m.a. annar þjálfara Vals þegar liðið varð Íslands- og bikarmeistari fyrir sex árum. Halldór Stefán segist vera ánægður með að hafa Guðlaug með sér í baráttunni sem framundan er.

Heldur sínu striki

„Egill Ármann Kristinsson styrktarþjálfari hefur verið og verður stór hluti af okkar teymi. Hann kemur inní örlítið meiri vinnu hjá okkur í vetur og vonandi næstu árin. Við erum síðan að skoða það að styrkja teymið enn frekar,“ sagði Halldór Stefán sem reiknar með að KA leiki a.m.k. sex æfingaleiki áður en flautað verður til leiks í Olísdeildinni. Þar á meðal hefur stefnan verið sett á þátttöku á Ragnarsmótinu á Selfossi sem fram fer upp úr miðjum þessum mánuði.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -