- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

KA-fólk streymir á úrslitaleikinn – „Áhuginn er gríðarlegur“

Fögnuður eftir sigurinn á Selfossi í undanúrslitum á miðvikudagskvöld. Búast má við gulri stúku á Ásvöllum á morgun á úrslitaleiknum. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Áhuginn er gríðarlegur. Ég reikna með að það verði að minnsta kosti 750 til 1.000 KA-menn í stúkunni á Ásvöllum á morgun. Aðgöngumiðar á leikinn renna út eins og heitar lummur,“ sagði Siguróli Magni Sigurðsson, íþróttafulltrúi KA þegar handbolti.is sló á þráðinn til kanna hvort áhugi væri á meðal stuðningsmanna KA að mæta á úrslitaleik Coca Cola-bikarsins á Ásvöllum á morgun.


KA leikur þá til úrslita í fyrsta sinn í 18 ár undir eigin merkjum í bikarkeppninni. Liðið mætir Íslands- og bikarmeisturum Vals og hefst leikurinn klukkan 16.


„Rosalegur áhugi er fyrir hópferð suður í fyrramálið og heim aftur annað kvöld. Einnig eru öll sæti í flugi suður á morgun að seljast upp. Þess utan er KA með þrjú lið í úrslitum bikarkeppninnar í 4. flokki karla og kvenna á sunnudaginn. Allir leikmenn liðanna, foreldrar þeirra, þjálfarar og fararstjórar mæta á leikinn. Það alveg ljóst að við munum verða áberandi á Ásvöllum og fólk er staðráðið að skila stemningunni inn á leikvöllinn.

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


Stemningin innan félagsins er mögnuð og menn eru byrjaðir að upplifa sömu stemningu og var á tíunda áratugnum og í upphafi þessarar aldar. Margir af þeim sem þá komu á alla leiki eru byrjaðir að mæta aftur og ætla ekki að láta sitt eftir liggja fremur en aðrir á morgun,“ sagði Siguróli.


Lagt verður af stað í hópferðina frá KA-heimilinu í fyrramálið klukkan níu á langferðabifreið frá SBA. Fargjaldið báðar leiðir er 3.000 krónur. Miði á leikinn er ekki innifalinn en miðasala fer fram í gegnum Stubbur miðasöluapp.


Nánari upplýsingar um hópferðina er að finna á heimasíðu KA. Hlekk er að finna hér.


Eftir sigurinn á Selfoss í framlengda undanúrslitaleiknum á miðvikudagskvöldið hefur KA-liðið dvalið hér fyrir sunnan í góðu yfirlæti við undirbúning og æfingar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -