Karlalið KA í handknattleik flaug í morgun á vit Evrópuævintýra í Austurríki. Millilent var í Ósló þaðan sem rakleitt var haldið til Vínarborgar. Á föstudag og laugardag leikur KA við HC Fivers í Evrópubikarkeppni karla í handknattleik.
HC Fivers situr í þriðja sæti austurrísku 1. deildarinnar með 12 stig að loknum sjö leikjum, hefur unnið sex viðureignir en einu sinni lotið í lægra haldi. Fivers tók þátt í Evrópubikarkeppninni á síðasta tímabili og féll úr leik eftir tvær viðureignir gegn Bækkelaget frá Noregi.
KA tekur þátt í Evrópukeppni félagsliða í fyrsta sinn frá tímabilinu 2005/2006. Þá komst lið félagsins í 16-liða úrslit í Áskorendakeppni EHF, forvera Evrópubikarkeppninnar sem nú er tekið þátt í. Fyrir 16 árum féll KA úr leik eftir tvær hörkuviðureignir við Steaua Búkarest. Eftir sigur á heimavelli, 24:23, tapaði KA í Búkarest með níu marka mun, 30:21. Í umferðinni á undan vann KA georgíska liðið Mamuli Tbilisi örugglega í tveimur viðureignum. Þjálfari KA á þessum tíma var Reynir Stefánsson núverandi varaformaður HSÍ.
Tveir leikmenn úr KA-liðinu sem lék síðast í Evrópukeppni eru ennþá í eldlínunni. Ragnar Snær Njálsson stendur ennþá vaktina í vörninni en Jónatan Þór Magnússon hefur fært sig yfir á hliðarlínuna, úr hlutverki leikmanns yfir í starf þjálfara.
Þess má til fróðleiks og gamans geta að KA tók fyrst íslenskra liða þátt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu leiktíðina 1997/1998. Fyrst spreyttu lið frá KA sig í Evrópukeppni haustið 1995.
Haukar og ÍBV taka einnig þátt í Evrópubikarkeppninni en leika ekki fyrr en um aðra helgi.