KA-menn kjöldrógu Stjörnumenn í lokaleik níundu umferðar Olísdeildar karla í handknattleik í KA-heimilinu í kvöld. Lokatölur 36:31 en munurinn var mestur 12 mörk þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Með sigrinum færðist KA upp að hlið Vals í þriðja til fjórða sæti og virðist ljóst að árangur KA-liðsins er engin tilviljun. Arfaslakir Stjörnumenn sitja í níunda sæti með stigin sín sjö og mega þakka fyrir þau eins og liðið lék að þessu sinni.
Framan af síðari hálfleik benti e.t.v. ekki margt til þess að sigur KA yrði öruggur. Góður leikkafli heimamanna á síðustu mínútum fyrri hálfleik lagði grunninn að því sem koma skyldi. Staðan í hálfleik var 18:11.
Ekki stóð steinn yfir steini hjá Stjörnunni á fyrstu 20 mínútum síðari hálfleiks. KA-menn nýttu það til þess að leika eins og sá sem valdið hefur og náðu 12 marka forskoti, 32:20, þegar 10 mínútur voru til leiksloka. Úrslitin voru ráðin og engu breytti um þótt heimamenn slökuðu verulega á klónni á lokamínútunum og Stjörnunni tækist aðeins að klóra í bakkann svo lokaniðurstaðn yrði skárri en ella.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk KA: Bjarni Ófeigur Valdimarsson 10/2, Morten Linder 8/3, Giorgi Arvelodi Dikhaminjia 7, Jens Bragi Bergþórsson 4, Arnór Ísak Haddsson 3, Jóhann Geir Sævarsson 2/1, Aron Daði Stefánsson 1, Einar Birgir Stefánsson 1.
Varin skot: Bruno Bernat 15/1, 36,6% – Úlfar Örn Guðbjargarson 0.
Mörk Stjörnunnar: Hans Jörgen Ólafsson 8, Starri Friðriksson 5, Jón Ásgeir Eyjólfsson 5, Ísak Logi Einarsson 3, Barnabás Rea 2, Benedikt Marinó Herdísarson 2/2, Ólafur Brim Stefánsson 2, Pétur Árni Hauksson 1, Patrekur Þór Guðmundsson Öfjörð 1, Loftur Ásmundsson 1, Daníel Karl Gunnarsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 8, 25,8% – Sigurður Dan Óskarsson 3/1, 20%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.




