- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

KA/Þór nálgast takmarkið – úrslitaleikur eftir viku

Leikmenn KA/Þórs eru deildarmeistarar í Olísdeild kvenna 2021. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Framundan er úrslitaleikur um deildarmeistaratitilinn í Olísdeild kvenna í Framhúsinu eftir viku þegar KA/Þór kemur í heimsókn. Þetta er ljóst eftir að KA/Þór vann Val, 21:19, í KA-heimilinu í 13. og næst síðustu umferð í dag. Á sama tíma vann Fram stórsigur á FH, 35:20. KA/Þór og Fram eru jöfn að stigum, með 20 hvort, auk þess sem KA/Þór vann fyrri viðureignina á heimavelli í vetur. Þetta þýðir jafnframt að KA/Þór og Fram sitja yfir í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og mæta til leiks í undanúrslitum.


Valur er í þriðja sæti, fimm stigum á eftir tveimur efstu liðunum.

Staðan í Olísdeild kvenna.

Leikurinn í KA-heimilinu í dag einkenndist af sterkum varnarleik. Sóknarmenn áttu erfitt uppdráttar. Markvarslan var hinsvegar umtalsvert betri hjá KA/Þór.


Talverðar sveiflur voru í leiknum í fyrri hálfleik. Valur skoraði þrjú af fyrstu fyrstu fimm mörkum leiksins áður en KA/Þór tók af skarið og skoraði fimm mörk í röð á kafla þar sem Valur skoraði ekki mark í tæpar níu mínútur. Vörn KA/Þórs var sterk og Matea Lonac vel á verði í markinu. Hún var með um 50% hlutfallsmarkvörslu í hálfleiknum.


Valur náði sér upp úr þessum slæma kafla og skoraði þrjú mörk í röð og hleypti spennu í leikinn á ný. KA/Þórsliðið var öflugra á lokakaflanum og aftur var nærri átta mínútna markalaus kafli hjá Val sem var þremur mörkum undir í hálfleik, 11:8.


Eftir erfiðar upphafsmínútur í síðari hálfleik brá Andri Snær Stefánsson þjálfari KA/Þórs á það ráð að tefla fram sjö leikmönnum í sókn um skeið. Valsmenn reyndu sama bragð þegar á leið enda gekk illa að opna afar sterka vörn Akureyrarliðsins sem hafði auk þess hina öflugu Lonac í markinu sem hélt uppteknum hætti frá fyrri hálfleik.


Staðan var 17:12 þegar síðari hálfleikur var hálfnaður. Um leið tók Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, sitt þriðja og síðasta leikhlé. Það skilaði ekki tilætluðum árangri. Valsliðinu gekk illa að opna vörn KA/Þórs-liðinu sem hélt tveggja til fjögurra marka forskoti allt til leiksloka. Svipaða sögu má segja um lið KA/Þórs.


Valur náði að nálgast undir lokin og koma forystu KA/Þórs niður í tvö mörk í tvígang en Hulda Bryndís Tryggvadóttir skoraði tvö síðustu mörk heimaliðsins og sá til þess að KA/Þór vann sannfærandi sigur.


Aldís Ásta Heimisdóttir lék afar vel fyrir KA/Þórsliðið, jafnt í vörn sem sókn og var besti maður liðsins ásamt Lonac markverði.


Mörk KA/Þórs: Aldís Ásta Heimisdóttir 7, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 3, Ásdís Guðmundsdóttir 3, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2, Martha Hermannsdóttir 2, Rakel Sara Elvarsdóttir 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 12, 40%.
Mörk Vals: Lovísa Thompson 6/2, Thea Imani Sturludóttir 5, Auður Ester Gestsdóttir 3, Lilja Ágústsdóttir 2, Elína Rósa Magnúsdóttir 1, Karlotta Óskarsdóttir 1, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 4, 21,1% – Margrét Einarsdóttir 1, 14,3%.


Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -