Kæra Hauka vegna framkvæmdar á leik Hauka og Gróttu í Olísdeild karla á síðasta fimmtudag verður þingfest hjá dómstól HSÍ á morgun, eftir því sem handbolti.is kemst næst.
Haukar töpuðu leiknum með eins marks mun, 28:27, á Ásvöllum á síðasta fimmtudag. Þeir höfðu ýmislegt við frammistöðu dómara leiksins að athuga á viðburðaríkum loka sekúndum leiksins. Vilja þeir láta á málið reyna fyrir dómstólnum.
„Handknattleiksdeild Hauka kærir hér með framkvæmd leiks Hauka og Gróttu í Olísdeild karla sem fram fór fimmtudaginn 23. mars 2023, þar sem dómari leiksins dæmir mark og staðfestir það með bendingum og flautumerki um að hefja megi leikinn á miðju með frumkasti,“ segir í kærunni og Vísir vitnaði til í frétt á síðasta laugardag.
Ekki liggur ljóst fyrir hversu langan tíma dómstóllinn gefur sér til þess að gaumgæfa málið. Vafalítið líða nokkrir dagar þangað til dómur liggur fyrir.
Þrjár umferðir eru eftir af Olísdeild karla.