Haukar hafa ákveðið að kalla Guðmund Braga Ástþórsson til baka úr láni hjá Aftureldingu. Hann lék sinn síðasta leik með Aftureldingu í kvöld gegn Þór í Íþróttahöllinni á Akureyri þar sem hann fór á kostum, skoraði fimm mörk og átti 11 stoðsendingar samkvæmt tölfræði HBStatz.
Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, staðfesti við handbolta.is í kvöld að hann hafi ákveðið að fá Guðmund Braga til baka í leikmannahóp Hauka. Staðan á leikmannahópi Hauka væri önnur nú en fyrir mánuði. Óvissa væri um framhaldið hjá Darra Aronssyni sem meiddist gegn KA í síðustu viku. Þá væri óljóst hvenær Geir Guðmundsson leiki handknattleik aftur eftir að hafa hlotið heilahristing í kappleik við ÍR. Heimir Óli Heimisson glími við meiðsli og eins Atli Már Báruson.
Guðmundur hefur leikið með Aftureldingu síðasta mánuðinn og verið mjög aðsópsmikill í sóknarleik Mosfellinga. Alls voru leikir hans sex í búningi Aftureldingar og mörkin 26.