„Við vorum frábærir í kvöld. Hugsaðu þér. Við vorum án Tandra Más Konráðssonar, Ólafs Bjarka Ragnarssonar og Leós Snæs Péturssonar en erum samt með frumkvæðið gegn sterku FH-liði. Í stað þeirra koma ungir strákar inn í þeirra hlutverk og standa sig mjög vel,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, eftir að lið hans fékk annað stigið úr viðureigninni við FH í Kaplakrika í gærkvöld í 17. umferð Olísdeildar karla.
„Það er ekki heiglum hent að mæta hingað og fá annað stigið gegn sterku liði FH og eiga þannig lagað skilið að fá bæði stigin. Það var leiðinlegt að okkur tókst það ekki eftir það sem menn lögðu í leikinn. Þetta snýst um karakter og stemningu í liðinu og þau atriði voru upp á tíu að þessu sinni,“ sagði Patrekur vildi ekkert velta sér upp úr síðustu sekúndum leiksins þegar Stjörnuliðið tapaði boltanum sem gaf FH kost á að jafna metin.
„Að vera með frumkvæðið gegn FH í Kaplakrika er frábært. FH er með frábært lið og þótt það hafi vantað Ágúst í kvöld þá er liðið eftir sem áður vel mannað. Ég er ánægður með hvernig menn mættu til leiks í kvöld og eins gegn Aftureldingu um síðustu helgi,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar í samtali við handbolta.is í Kaplakrika í gærkvöld.