Handknattleikskonan öfluga, Karen Tinna Demian, hefur framlengt samningnum sínum við handknattleiksdeild ÍR. Karen Tinna, sem er lykilmaður í meistaraflokki kvenna, skoraði 93 mörk í 16 leikjum í vetur en liðið hafnaði í öðru sæti í Grill 66-deildinni.
Karen Tinna og félagar standa í ströngu um þessar mundir í umspili um sæti í Olísdeildinni. ÍR-ingar unnu Gróttu, 32:20, í fyrstu umferð á sunnudaginn. Liðin mætast aftur á miðvikudagskvöldið í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi og skortir ÍR einn vinning til viðbótar til þess að leika til úrslita um sæti í Olísdeildinni við Selfoss eða FH.
Í desember var Karen Tinna valin handknattleikskona ÍR árið 2022.
„Ég er mjög ánægð með að Karen Tinna hafi ákveðið að framlengja samning sinn við félagið. Hún er mjög mikilvæg í okkar hópi og fyrir handboltann í félaginu enda sterkur leikmaður, frábær liðsfélagi og fyrirmynd,“ er haft eftir Sólveigu Láru Kjærnested þjálfara ÍR í tilkynningu handknattleiksdeildar félagsins.