Karlalið Hauka hefur öðlast sæti í átta liða úrslitum Evrópubikarkeppni karla í handknattleik eftir að hafa lagt slóvenska liðið RK Jeruzalem Ormoz öðru sinni í dag í 16-liða úrslitum, 31:26. Leikið var í Ormoz í Slóveníu. Haukarnir unnu einnig fyrri viðureignina, 31:23 á Ásvöllum, og fóru þar með örugglega áfram, samanlagt, 62:49.
Eftir því sem næst verður komist verður dregið til undanúrslita á þriðjudaginn. Eftir að allir leikir 16-liða úrslita hafa verið til lykta leiddir á morgun skýrist hvaða lið hafa náð svo langt í keppninni og Haukar.
Staðan var jöfn eftir fyrri hálfleik í Ormoz, 12:12. Haukar voru með yfirburði í síðari hálfleik og náðu hvað eftir annað sjö marka forskoti. Þeir voru mest níu mörkum yfir.
Ólafur Ægir Ólafsson lék með Haukum í kvöld í fyrsta sinn um nokkurt skeið. Hann hefur verið fjarverandi vegna meiðsla. Birkir Snær Steinsson tók út leikbann.
Mörk Hauka: Össur Haraldsson 6, Geir Guðmundsson 4, Þráinn Orri Jónsson 4, Sigurður Snær Sigurjónsso 3, Skarphéðinn Ívar Einarsson 3, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Andri Fannar Elísson 3, Grímur Hergeirsso 2, Adam Haukur Baumruk 1, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 1, Guðmundur Hólmar Helgason 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 11, 36,6% – Vilius Rasimas 2, 22,2%
Mörk RK Jeruzalem Ormoz: Lucian Bura 8, Tadeg Sok 5, Garsper Pungartnik 5, Jure Lukman 3, Teo Sulke 2, Aljosa Munda 1, David Bogadi 1, Zan Lesjak 1.
Varin skot: Tomislav Balent 6, 21.4% – Filip Ranfl 2, 18,1%.
Hér fyrir neðan er upptaka frá leiknum: