- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Katalóníurisinn mætir þeim dönsku í úrslitum

Leikmenn Barcelona ánægðir eftir sigurinn á Nantes í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í dag. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Barcelona leikur til úrslita í Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla á morgun gegn Danmerkurmeisturum Aalborg Håndbold. Barcelona vann öruggan sigur á franska liðinu Nantes í undanúrslitum í dag, 31:26, en að vanda var leikið í Lanxess-Arena í Köln þar sem um 1.000 áhorfendum var heimilt að vera viðstaddir.


Barcelona var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 15:13. Leikmenn Nantes náðu að jafna metin í 17:17, snemma í síðari hálfleik áður en leiðir liðanna skildu.

Aron Pálmarsson sparaði kraftana í dag og lék ekki með Barcelona. Hann verður vonandi klár í slaginn á morgun. Hann kveður Barelona í sumar, sem kunngt er, og flytur til Álaborgar en Aron samdi við Aalborg til þriggja ára undir lok vetrar. Úrslitaleikurinn hefst klukkan 16 á morgun.


Barcelona hefur níu sinnum unnið Meistaradeild Evrópu, þar af tvisvar sinnum eftir að úrslitahelgarfyrirkomulagið var tekið upp, 2011 og 2015. Guðjón Valur Sigurðsson var leikmaður Barcelona þegar liðið vann keppnina 2015.

Aalborg hefur aldrei áður komist í undanúrslit í Meistaradeildinni, hvað þá í úrslitaleikinn sjálfan eins og nú er orðin raun á.


Aleix Gómez Abelló var markahæstur hjá Barcelona í dag með fimm mörk eins og félagi hans Dika Mem. Sá síðarnefndi átti einnig fjórar stoðsendingar. Jure Dolenec skoraði fjögur mörk. Gonzlao Pérez de Vargas átti stórleik í marki Barcelona og var með 40% hlutfallsmarkvörslu.


Fyrrverandi leikmaður Barcelona, hornamaðurinn Valerio Rivera var atkvæðamestur hjá Nantes með sex mörk. David Romeu og Théo Monar skoruðu fjögur mörk hvor. Markvörðurinn Emil Nielsen var með 32% hlutfallsmarkvörslu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -