Katrín Tinna Jensdóttir, leikmaður norska úrvalsdeildarliðsins Volda, hefur verið kölluð inn í íslenska landsliðið í handknattleik í kjölfar meiðsla hjá Lovísu Thompson og Berglindi Þorsteinsdóttur. Þær hafa báðar orðið að draga sig út úr hópnum af þeim sökum. Landsliðið kom saman til æfinga í gær vegna fjögurra leikja sem framundan eru.
Katrín Tinna hefur leikið þrjá landsleiki. Hún var í stóru hlutverki hjá U19 ára landsliði kvenna í B-hluta EM sumarið 2021.
Katrín Tinna er á öðru tímabili með Volda sem vann sér sæti í norsku úrvalsdeildinni í vor í fyrsta sinn. Katrín Tinna hefur leikið stórt hlutverk í varnarleik Volda. Fyrir er í landsliðinu samherji hennar hjá norska liðinu, Rakel Sara Elvarsdóttir.
Íslenska landsliðið mætir Færeyingum í tveimur vináttuleikjum í Skála og Klaksvík um næstu helgi áður en kemur að viðureignum við landslið Ísrael í forkeppni HM 5. og 6. nóvember.