- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Kaup og sölur“ hjá konunum?

Hekla Rún Ámundadóttir skoraði 10 mörk gegn gríska liðinu Alexandros Giannitson í Áskorendakeppninni 2014-2015 í Safamýrinni 43:16. Ljósmynd/Fram.
- Auglýsing -

Það er næsta víst, að eitthvað verður um „kaup og sölur“ í kvennaleikjum Íslands í Evrópukeppninni í handknattleik, eftir að dregið var í morgun, 19. júlí, í Evrópubikarkeppni EHF, þar sem þrjú lið eru með í keppninni og þurfa þau að fara langt til að heimsækja mótherja sína; Eyjastúlkur til Grikklands, Valur til Slóvakíu og KA/Þór til Makedóníu.

Í gegnum tíðina hafa forráðamenn íslensku liðanna annað hvort selt heimaleik sinn, eða þá keypt heimaleik andstæðingsins. Sá leikur hefur oft verið endurleikinn frá því að Valur tók fyrst íslenskra kvennaliða þátt í Evrópukeppni tímabilið 1965-1966. Síðan þá hafa íslensk lið leikið gegn liðum frá 34 Evrópuþjóðum. Oftast hefur verið leikið gegn liðum frá Noregi, Frakklandi og Grikklandi, eða gegn sex liðum frá hverju þessara landa.

 
Eyjastúlkur, sem drógust gegn OFN Ionia, liði sem er frá úthverfi Aþenu, þekkja það vel að leika gegn grísku liði. Þær slógu tvö grísk lið út úr Evrópukeppninni keppnistímabilið 2021-2022. Fyrst AC PAOK frá Þessalóníku, en báðir leikirnir fór fram þar í borg. ÍBV vann „heimaleik“ sinn 29:22, en tapaði útileiknum 24:29; markatalan 53:51! Síðan lék ÍBV báða leiki sína gegn Panorama í Eyjum og vann þá báða; 29:24 og 26:20.

Leikmenn ÍBV fagna sigri á PAOK í Þessalóníku á síðasta vetri. Mynd/Þóra Sif Kristinsdóttir

 Ítalskir dómarar Stjörnunni erfiðir!

 Stjarnan var fyrsta liðið til að leika gegn liði frá Grikklandi; í Evrópukeppni meistaraliða 1995-1996. Stjörnukonur voru slegnar út, eftir sögulega viðureign í Grikklandi. Þær fögnuðu sigri á Anagenski Artas í Garðabæ 24:16, þar sem Herdís Sigurbergsdóttir skoraði 7 mörk. Flestir reiknuðu með því að Stjarnan færi áfram, en ferð Stjörnustúlkna var erfið; flogið til Aþenu og síðan var farið í sjö tíma rútferð til Arta, sem er stutt frá landamærum Albaníu. Evrópudraumur Stjörnunnar varð að martröð í Grikklandi. Það sáu dómarar frá Ítalíu um, Stjarnan tapaði með ellefu mörkum, 30:19.

 Ólafur Lárusson, þjálfari Stjörnunnar, sagði við Morgunblaðið að hann hafi aldrei séð aðra eins dómgæslu. 

„Ég hef séð heimaleikjadómgæslu og maður reiknar með henni en ég hef aldrei kynnst öðru eins.“ Bergþóra Sigmundsdóttir, fararstjóri tók í sama streng. „Ég hef ekki upplifað aðra eins dómgæslu og hefði ekki trúað því að óreyndu að þetta væri hægt hjá siðmenntuðum þjóðum. Við gátum ekkert gert – vorum alveg mát.“

  Þegar 23 mínútur voru liðnar af leiknum var staðan 11:10, en þá var Herdísi Sigurbergsdóttur vísað af velli í þriðja sinn og þar með útilokuð frá frekari þátttöku. Þegar 12 mínútur voru eftir af leiknum fékk Guðný Gunnsteinsdóttir sama dóm en þá var staðan 22:14. Að sögn Ólafs og Bergþóru voru Stjörnustúlkur út af í samtals 26 mínútur en gríska liðið í 12  mínútur og þar af átta mínútur á lokakaflanum þegar úrslitin voru ráðin. Gríska liðið fékk 15 eða 16 vítaköst að þeirra sögn en Stjarnan fjögur víti og tvö að auki á lokamínútunum. 

 „Það leyndi sér ekki að ítölsku dómararnir ætluðu að taka Herdísi og Guðnýju sérstaklega fyrir,“ sagði Ólafur.  

 „Leikurinn var sýndur beint í gríska sjónvarpinu og íþróttafréttamaður sagði að þetta væri ekki boðlegt.“ Fyrir utan framgöngu dómaranna, fengu áhorfendur að vaða uppi með skrílslæti. „Þeir voru ókurteisir og hentu í okkur alls konar drasli.“

 * Stjarnan mætti gríska liðinu Makedonikos í riðlakeppni í Áskorendakeppni EHF 2004-2006, sem fór fram í Garðabæ. Stjarnan vann 35:13.

 * Valur lék tvo leiki sína gegn gríska liðinu HC Athinaikos Aþena í Áskorendakeppninni 2005-2006, tapaði fyrri leiknum 24:26, en vann síðari leikinn 37:29 og komst áfram. Alla Gokorian skoraði 13 mörk í seinni leiknum og hefur aðeins Sólveig Lára Kjærnested, Stjörnunni, skorað jafn mörg mörk í Evrópuleik.

 * Fram vann báða leiki sína gegn Alexandros Giannitson í Áskorendakeppninni 2014-2015 í Safamýrinni 43:16 og 36:16. Hekla Rún Ámundadóttir skoraði 10 mörk í fyrri leiknum.

 Valur til Slóvakíu

 Valur mætir DAC Dunajská Streda frá Slóveníu í Evrópubikarkeppni EHF. Liðið er frá samnefndum bæ rétt sunnan við Bratislava. Þannig að Valsstúlkur koma til með að fljúga til Vín í Austurríki og fara þaðan með rútu yfir landamærin til Slóvakíu.

 Íslensk lið hafa tvisvar leikið gegn liði frá Slóvakíu. 

 * Fram mætti Slovan Duslo Sala í EHF-bikarkeppninni 1994-1995. Fram lék báða leikina í Slóvakíu og tapaði þeim 14:33 og 21:27.

 * Stjarnan lék gegn Iuventa Michalovce í einum leik í milliriðli í Evrópukeppni meistaraliða 2007-2008, sem fór fram í Györ í Ungverjalandi. Stjarnan tapaði 30:37.

KA/Þórsliðið fór til Kósovó á síðustu leiktíð en verður væntanlega farið til Skopje í Norður Makeóníu. Mynd/Siguróli.

 KA/Þór til Skopje

 KA/Þór fer til Norður-Makedóníu og mætir þar Gjoche Petrov WHC í Skopje.

 Fram er eina liðið sem hefur leikið í Makedóníu. Það var í 8-liða úrslitum Áskorendakeppninnar 2009-2010 og fóru báðir leikirnir fram í Skopje. Fram fagnaði sigri í fyrri leiknum gegn HC Metalurg 29:26, þar sem Karen Knútsdóttir og Stella Sigurðardóttir skoruðu sín hvor 8 mörkin. Fram tapaði seinni leiknum 15:21 og féll úr keppni.

 Meira síðar,

Sigmundur Ó. Steinarsson.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -