Komið verður inn á næsta ár þegar Elín Jóna Þorsteinsdóttir landsliðsmarkvörður í handknattleik og liðsmaður danska úrvalsdeildarliðsins Ringkøbing Håndbold tekur þátt í kappleik á nýjan leik.
Elína Jóna segir frá því á Instagram að hún hafi gengist undir aðgerð á mjöðm vegna meiðsla og verði frá keppni í sex til átta mánuði.
„Því miður endaði mitt tímabil ekki alveg eins og það átti……meiðslin í mjöðminni eftir landsleikinn voru verri en ég hélt og aðgerð því miður þörf. Aðgerðin gekk vel og ég kem sterk tilbaka á völlinn eftir 6-8 mánuði,“ skrifaði Elín Jóna á Instagram fyrir helgina.
Elín Jóna meiddist undir lok fyrri hálfleiks í viðureign Íslands og Svíþjóðar í undankeppni EM á Ásvöllum 20. apríl. Hún fór með landsliðinu til Serbíu í síðasta leik undankeppninnar þremur dögum eftir viðureignina við Svía. Margréti Einarsdóttur, markverði, var bætt í hópinn fyrir leikinn ytra við Serba. Engu að síður var Elín Jóna markvörður í leiknum ytra ásamt Hafdísi Renötudóttur og varð að standa vaktina meirihluta leiksins við Serba eftir að Hafdís fékk boltann í höfuðið. Vonir stóðu til að meiðsli Elínar Jónu væru ekki eins alvarleg og síðar kom fram í dagsljósið.
Eftir að til Danmerkur var komið að loknum landsleikjunum í lok í apríl tók Elín Jóna ekki þátt í tveimur síðustu leikjum Ringkøbing Håndbold og verður því miður ekki með á nýjan leik fyrr en eitthvað verður liðið inn á næsta ár.