„Við fengum sex á móti fimm stöðu þegar fimm sekúndur voru eftir. Ég var þá búinn að spandera öllum leikhléum í tóma vitleysu fyrr í leiknum og gat þar af leiðandi ekki lagt á ráðin. Því fór sem fór,“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari kvennaliðs Gróttu, í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir eins marks tap Gróttu fyrir ÍR, 23:22, í öðrum undanúrslitaleik liðanna í umspili um sæti í Olísdeild kvenna á næsta tímabili.
Eins og Kári nefnir þá fékk Grótta möguleika á að jafna metin og knýja út framlengingu á síðustu sekúndum leiksins í Austurbergi í gærkvöld manni fleiri en varð ekki kápan úr því klæðinu.
Þar með kemur til oddaleiks á milli Gróttu og ÍR á þriðjudagskvöld í Hertzhöllinni. Sigurliðið mætir HK í leikjum um sæti í Olísdeild að ári. Fyrsta viðureign Gróttu og ÍR í undanúrslitum umspilsins lauk með 16:15 sigri Gróttu á miðvikudagskvöld.
Kári segir þetta vera þriðja hnífjafna leik Gróttu og ÍR á keppnistímabilinu sem hafi endað með eins marks sigri annars hvors liðsins. Kári á ekki von á öðru en framhald verði á.
„Kemur ekki röðin að okkur í næsta leik að vinna með einu marki? Ég held það,” sagði Kári. „Við búum okkur eins vel og kostur er fyrir oddaleikinn á þriðjudaginn til að vinna á heimavelli og mæta HK í umspilinu. Lengja tímabilið eins og hægt er,“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu.