Á morgun og á þriðjudag verður keppni í Meistaradeild karla keppnistímabilið 2019/2020 leidd til lykta fyrir luktum dyrum í Lanxess-Arena í Köln. Fjögur bestu lið síðasta keppnistímabils leika til úrslita þótt nokkur þeirra hafi tekið talsverðum mannabreytingum frá síðasta keppnistímabili. Úrslitaleikirnir áttu að fara fram í byrjun júní en var frestað vegna kórónuveirufaraldursins.
Í undanúrslitum annað kvöld mætast annars vegar franska meistaraliðið PSG og spænsku meistararnir í Barcelona og hinsvegar þýska meistaraliðið THW Kiel og ungversku meistararnir Veszprém. Sigurliðin í leikjunum á morgun mætast í úrslitaleik á þriðjudagskvöldið klukkan 19.30. Tapliðin leika um bronsverðlaunin klukkan 17.
Hér eru nokkrar staðreyndir um leikina:
- Sigurlið Meistaradeildar fær í sinn hlut 500.000 evrur, jafnvirði 78 milljóna króna. Liðið sem hafnar í öðru sæti fær helmingi lægri fjárupphæð. Fyrir þriðja sæti verða greiddar 150.000 evrur, ríflega 23 milljónir, og liðið í fjórða sæti fær 100.000 evrur, tæpar 16 milljónir króna. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu EHF kemur þetta verðlaunafé til viðbótar við um 4,5 milljónir evra sem deilt var út til þátttökuliða í keppninni á keppnistímabilinu að viðbættri ríflega einni milljón evra, um 156 milljónum króna, sem úthlutað var í nóvember þegar uppgjör tímabilsins lá fyrir.
- Ef Aron Pálmarsson leikur með Barcelona í leikjunum á morgun og á þriðjudag verður hann fyrsti handknattleiksmaðurinn í sögunni til þess að taka þátt í úrslitahelgi Meistaradeildar, final four, í níu skipti. Aron og Serbinn Momir Ilic hafa tekið þátt átta sinnum hvor. Ilic er hættur keppni.
- PSG hefur aldrei unnið Meistaradeild Evrópu.
- Liðin fjögur verða vandlega skermuð af á meðan dvöl þeirra stendur í Köln vegna leikjanna. Hvert og eitt mun hafa afmarkaða hæð á hóteli þar sem tryggt er að samgangur á milli þeirra verði ekki mögulegur. Hvert og eitt mun hafa sér matsal, eigin rútu og ekki deila æfingahúsnæði. Liðin koma til Köln í dag.
- Allir leikmenn verða að framvísa tveimur neikvæðum kórónuveiruprófum frá síðustu sólarhringum við komuna til Köln þar sem þriðja prófið verður tekið á flugvelli. Leikmenn verða í sóttkví þar til niðurstöður liggja fyrir. Svipaða sögu er að segja af dómurum, eftirlitsmönnum og þeim fáu starfsmönnum sem verða við vinnu í kringum leikina í Lanxess-Arena.-
- Barcelona hefur 16 sinnum komist í undanúrslit Meistaradeildar síðan keppnin var sett á laggirnar 1993/1994. Frá því að Final4 fyrirkomulagið var tekið upp leiktíðina 2009/2010 er Bareclona með í áttunda sinn að þessu sinni og tvisvar unnið, 2011 og 2015. Alls hefur Barcelona í átta skipti unnið Meistaradeild Evrópu, oftar en nokkurt annað félag.
- Veszprém hefur leikið fjórum sinnum til úrslita í Meistaradeild Evrópu en aldrei unnið. Árið 2002 tapaði lið félagsins fyrir Magdeburg, 2015 fyrir Barcelona, árið eftir fyrir Kielce eftir vítakeppni og 2019 tapaði Veszprém fyrir Vardar í úrslitaleik Meistaradeildar.
- Kiel hefur þrisvar unnið Meistaradeild Evrópu, 2007, 2010 og 2012. Fjórum sinnum hefur lið félagsins orðið í þriðja sæti, 2000, 2008, 2009 og 2014. Einnig hefur Kiel einu sinni hreppt þriðja sætið, 1995.