- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kókkassakast styrkti skothörku þeirra!

Hilmar Björnsson, landsliðsþjálfari, býður Nettelstedt-leikmennina Bjarna Guðmundsson og Sigurð Val Sveinsson velkomna á æfingu í Laugardalshöllinni, fyrir B-keppnina í Hollandi 1983.
- Auglýsing -

Þegar Ólafur H. Jónsson ákvað að halda heim á leið frá Dankersen í Vestur-Þýskalandi 1979, til að gerast þjálfari og leikmaður Þróttar, hófust tilfæringar á handknattleiksmönnum sem léku í Þýskalandi. Þorbergur Aðalsteinsson yfirgaf Göppingen – fór til Víkings og árið eftir, 1980, fór Axel Axelsson heim frá Dankersen og gerðist þjálfari Fram. Björgvin Björgvinsson og Gunnar Einarsson, sem léku saman með Grambke Bremen, fóru til Fram og FH. Jón Pétur Jónsson, bróðir Ólafs, sem hafði leikið um tíma með Dankersen, fór á ný til liðs við Val.

 Þrír Íslendingar hófu að leika í „Bundesligunni“ tímabilið 1980-1981; Viggó Sigurðsson og Sigurður Gunnarsson með Bayer Leverkusen og Ágúst Svavarsson með Göppingen. Sigurður lék lítið, þar sem hann sleit liðbönd í ökkla í byrjun október. 

 Neyðarkall frá Dankersen

 Axel hafði ekki leikið lengi með Fram þegar neyðarkall kom frá Dankersen fyrir áramót 1981. Ungt lið félagsins var í fallhættu og vantaði foringja. Vildi Dankersen fá Axel til að reyna að bjarga málum og það strax. Fram gaf Axel leyfi til að fara til Dankersen í byrjun mars 1981 og tók Björgvin Björgvinsson við þjálfun liðsins.

 Axel skrifaði undir tveggja ára samning og hóf nám í tölvunarfræði.

 Dankersen féll. Axel lék með liðinu í 2. deild tímabilið 1981-1982. Hann var tekinn úr umferð í öllum leikjum liðsins, en lét það ekki á sig fá og átti hvern stórleikinn á fætur öðrum og skoraði grimmt; Dankersen varð yfirburðar sigurvegari í 2. deild og endurheimti sæti sitt í „Bundesligunni.“ Liðið fékk níu stigum meira en HSG Hannover, lék 22 leiki, vann sautján, gerði tvö jafntefli, tapaði þremur leikjum.

Sigurður Valur Sveinsson á vítapunktinum. Fyrir aftan hann er Þorbjörn Jensson, Val, sem veit vel hvar knötturinn hafnar; Í markinu!

 Sigurður Valur Sveinsson, Þrótti, var á leiðinni til Dankersen 1981 og sagðist hlakka til að leika við hliðina á Axel. Ekkert varð úr því þegar Dankersen féll. Sigurður ákvað að vera áfram hjá Þrótti og taka þátt í fyrstu Evrópuleikjum félagsins. Það eru margir sem hefðu viljað sjá þessar tvær stórskyttur leika saman í liði í Þýskalandi.

 Kókkassakast styrkti þá!

 Bregðum okkur heim til Íslands. Ólafur H. Jónsson gerði góða hluti með fámennan en öflugan hóp leikmanna hjá Þrótti, þar sem Páll Ólafsson (20 ára) og Sigurður Valur Sveinsson (21 árs) léku stórt hlutverk 1980-1981. Þeir voru kappsamir og áttu eftir að gera góða hluti í „Bundesligunni“. Skottækni þeirra var mikil og má segja að þeir hafi verið á skotæfingum alla daga; til að styrkja handleggjavöðva sína. Þeirra hlutverk var að dreifa Kóka-Kóla kössum um höfuðborgarsvæðið og nágrenni. Þeir voru daginn út og inn að kasta til kössum, þannig að skotkraftur þeirra var mikill.

Páll Ólafsson skorar í landsleik gegn Svíum.

 Þeir félagar voru í aðalhlutverki þegar Þróttur varð bikarmeistari 1981. Siggi lék árið áður (1979-1980) með sænska liðinu Olympia og vakti þá mikla athygli fyrir fjölbreyttan skotstíl og línusendingar. Siggi skoraði 8 mörk gegn Víkingi í bikarúrslitaleik, 21:20, þó svo að hann hafi verið í strangri gæslu. Þetta var stærsti sigur Þróttar í rúmlega 30 ára sögu félagsins.

 Sigurður skoraði 18 mörk í leik gegn Þór Akureyri í 2. deildarkeppninni, en hann hafði aldrei áður skorað svo mörg mörk í leik. Skoðum umsögnina í Vísi:

 Bræðurnir skoruðu 19 mörk!

 „Við Siggi bróðir vorum með 19 mörk samtals í leiknum gegn Þór,“ sagði Einar Sveinsson, eftir að Þróttur hafði lagt Þór frá Akuyreyri að velli í 2. deildarleik í Laugardalshöllinni 27:23, þegar blaðamaður Vísis hitti hann á förnum vegi eftir leikinn, laugardaginn 22. mars 1980. „Það kom í ljós að þetta var rétt hjá Einari. Sigurður bróðir hans skoraði 18 mörk í leiknum, Einar eitt,“ skrifaði Gylfi Kristjánsson í Vísi. „Sigurður var algjörlega óstöðvandi, skoraði 8 fyrstu mörk Þróttar, níu alls í hvorum hálfleik. Sigurður skoraði aðeins fjögur marka sinna úr vítaköstum.“ Hin mörk Þróttar skoruðu Páll Ólafsson 3, Ólafur H. Jónsson 3 og Tómas Tómasson 2.

 Bjarni til Þýskalands

 Aftur til Þýskalands. Eftir tímabilið 1981-1982 í „Bundesligunni“ lagði Ágúst Svavarsson skóna á hilluna og Viggó Sigurðsson fór til Víkings.

 Þetta tímabil var hornamaðurinn sterki, Bjarni Guðmundsson, Val, orðinn leikmaður með Nettelstedt.

Axel Axelsson var vinsæll.

 Hann var vinsæll…

 Axel var dýrlingur hjá ungum landsliðsmönnum, sem margir hverjir áttu eftir að leika í Þýskalandi, eins og Sigurður Valur, Páll, Atli Hilmarsson og Bjarni Guðmundsson. Þeir fengu að kynnast því í hvaða metum Axel var, þegar Ísland lék tvo leiki gegn V-Þýskalandi í byrjun árs 1981, en þá var Axel þjálfari og leikmaður Fram. Jafntefli var í Hamborg, 15:15, en Ísland vann í Lübeck 13:11. Þegar leikmenn voru kynntir fyrir leikinn í Lübeck, þar sem 3.500 áhorfendur voru samankomnir, kom í ljós að Axel og Ólafur H. voru vinsælir í Vestur-Þýskalandi. Þegar leikmenn voru kynntir fögnuðu áhorfendur dýrlingnum Erhard Wunderlich mikið, einnig þegar nafn Ólafs var lesið upp. En það ætlaði allt vitlaust að verða af fögnuði hjá áhorfendum þegar Axel var kynntur til leiks.

 Axel var í miklum metum hjá Þjóðverjum og hafa margir sérfræðingar sagt að hann sé kröftugasti og litríkasti handknattleiksmaður Íslands, sem hefur leikið í Þýskalandi.

 Í þessari ferð landsliðsins í lok janúar 1981 mættu forráðamenn Dankersen á leikina og þrýstu mikið á Axel, að koma aftur. 

 Þá kom á svæðið júgóslavneski þjálfarinn Vinko Dekaris, sem eitt sinn var orðaður við Víking; áður en Bogdan kom til liðsins. Hann var þjálfari Axels hjá Dankersen 1978-1979. Dekaris var þá orðinn þjálfari 3. deildarliðsins Hameln og vildi hann fá Axel til liðs við sig keppnistímabilið 1981-1982. Axel sagðist ekki hafa áhuga, en benti Dekaris á Atla Hilmarsson. Úr því varð að Axel fór með Atla til Hameln, sem varð til þess að Atli gerðist leikmaður liðsins tvö keppnistímabil (1981-1983).

 Fimm uppskurðir

 Þegar Axel lék sitt síðasta keppnistímabil með Dankersen 1982-1983 meiddist hann illa. Fyrst slitnaði hásin 30. október og síðan gaf vinstra hné sig í byrjun maí 1983. Þá fór Axel í fimmta uppskurð sinn frá því að hann kom til Dankersen 1974.

Bjarni Guðmundsson skorar úr hraðaupphlaupi í leik gegn Frökkum 1983.

 Þetta keppnistímabil léku Bjarni Guðmundsson, sem var talinn fljótasti hornamaður Þýskalands, og Sigurður Valur Sveinsson með Nettelsted, sem féll. Félagið stóð ekki við launagreiðslur til leikmanna og það var úrskurðað gjaldþrota. Bjarni fór til 2. deildarliðsins Wanne Eickel, en Sigurður til Lemgo sem lék í „Bundesligunni“.

 Atli Hilmarsson lék með 3. deildarliðinu Hameln tvö keppnistímabil, 1981-1983. Hameln tryggði sér 2. deildarsæti síðari keppnistímabilið. Atli fór frá liðinu til FH, þar sem þær reglur voru teknar upp, að aðeins einn útlendingur mætti leika með hverju liði. Atli varð að víkja fyrir júgóslavneskri stórskyttu. Atli fékk nokkur tilboð. Eitt þeirra kom frá 2. deildarliðinu Altenholz, en Atli hafnaði því.

Jóhann Ingi Gunnarsson var yngsti þjálfarinn í sögu “Bundesligunnar.”

Jóhann Ingi til Kiel

 Það vakti mikla athygli þegar Jóhann Ingi Gunnarsson var ráðinn þjálfari hjá Kiel 26. apríl 1982. Jóhann Ingi, sem hafði þjálfað íslenska landsliðið, unglingalandsliðið og gert KR að bikarmeisturum, hafði einnig verið orðaður við þjálfun danska landsliðsins. Jóhann Ingi var yngsti þjálfarinn, 28 ára, sem hafði þjálfað í „Bundesligunni“ og fyrsti erlendi þjálfarinn frá vestur-Evrópu. Jóhann Ingi kom, sá og sigraði og varð Kiel í öðru sæti, aðeins tveimur stigum á eftir meisturum Gummersbach keppnistímabilið 1982-1983. Sagt verður nánar frá Jóhanni Inga og afrekum hans síðar.

 HSÍ kallar á landsliðsmenn heim!

 Í næstu umfjöllun um Íslendinga í Þýskalandi verður sagt frá snjöllum hópi leikmanna sem héldu merki Íslands á lofti þegar Axel og Ólafur héldu heim. Kynslóðaskipti urðu!. Þá koma við sögu Bjarni Guðmundsson, Val, Sigurður Valur Sveinsson, Þrótti, Atli Hilmarsson, Fram/FH, Alfreð Gíslason, KA/KR, Kristján Arason, FH, Jóhann Ingi Gunnarsson, þjálfari, Val og Páll Ólafsson, Þrótti.

 Frægir félags- og landsliðsþjálfarar Vestur-Þýskalands lofuðu þessa leikmenn í hástert. HSÍ kallaði á þessa leikmenn heim til að taka þátt í undirbúningi fyrir Ólympíuleikana í Seoul 1988. Þýsku liðin vildu halda sínum mönnum, en síðan héldu flestir þessara leikmanna í víking til Spánar og gerðu garðinn frægan þar.

 Auf Wiedersehn.

Fyrri greinar Sigmundar um brautryðjendur sem hann hefur skrifað fyrir handbolta.is:

Svana fyrst eftir „teinunum“ í Þýskalandi

„Furan“ og „rauðhærði villimaðurinn“

Geir himnasending fyrir Göppingen

Axel og Kristbjörg – meistarahjón!

„Umbarnir“ voru ekki vaknaðir!

Axel með þýðingamesta vítakast Þýskalands!

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -