- Auglýsing -

Köllum gamla góða merkið aftur til leiks!

- Auglýsing -


Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir gömlum og rótgrónum merkjum íþróttafélaga og sérsambanda, sem eiga sér skemmtilega sögu, sem mönnum ber skylda til að varðveita. Þar með er borin virðing fyrir frumherjunum, sem lögðu grunninn með mikilli sjálfboðavinnu til að halda lífinu í félögum sínum. Þá sögu verðum við að varðveita af bestu getu.


Þess vegna var ég fyrir miklum vonbrigðum þegar forráðamenn Handknattleikssambands Íslands, HSÍ, tilkynntu í síðastliðinni viku að búið væri að skipta út gömlu sögulegu merki HSÍ, sem allir bestu handknattleiksmenn hafa leikið undir með stolti í 66 ár. Stílhreint merki í lit, sem fyrst var veitt fyrir 63 árum; á fimm ára afmæli HSÍ. Það voru tveir öflugir frumherjar sem fengu merkin afhent frá Ásbirni Sigurjónssyni, formanni HSÍ, sem átti mikinn þátt í að merkið var hannað. Frumherjarnir voru Benedikt G. Waage, forseti ÍSÍ og stjórnarmaður í alþjóðlegu Ólympíunefndinni og Valdimar Sveinbjörnsson, íþróttakennari, sem kom með handknattleikinn til Íslands frá Danmörku og reyndi hann fyrst í Barnaskólanum í Reykjavík, Miðbæjarskólanum, haustið 1921. Benedikt sagði að það væri honum mikill heiður að bera þetta fallega marki.

Gamla merki HSÍ sem Atli Már Árnason hannaði að beiðni HSÍ 1959. Það var síðan fyrst veitt á fimm ára afmæli HSÍ 1962, en notað á oddfána frá 1959.

Að breyta velheppnuðum og sögulegu merkjum, aðeins til að breyta þeim, er ekkert annað en móðgun við frumherja handknattleiksins á Íslandi, sem unnu mikil störf í sjálfboðavinnu. Einnig móðgun við þann sem teiknaði og hannaði merkið.
 
Þegar Ásbjörn og samherjar hans í nýrri stjórn HSÍ 1958, þótti nauðsynlegt að HSÍ, sem var stofnað 11. júní 1957, eignaðist merki. Ásbjörn, sem var mikill framkvæmdamaður, fékk Atla Má Árnason, teiknara og listmálara, til þess að hanna merkið. Síðan voru gerð 400 merki í tveimur litum, 200 af hvoru. Merkin voru fyrir eldri forustumenn handknattleikshreyfingarinnar og velunnara hér á landi og erlenda gesti og mótherja, en annar litur var á merkjum sem landsliðsmenn í handknattleik fengu; svokölluð landsliðsmerki.

Þegar Benedikt og Valdimar tóku á móti merkjum sínum, var öllum þeim er leikið höfðu leikið landsleiki, 36 körlum og 23 konum, afhent landsliðsmerki HSÍ.

Þá var þeim sem höfðu leikið tíu landsleiki, færður áletraðan bikar með merki sambandsins. Þeir voru Gunnlaugur Hjálmarsson, ÍR, Ragnar Jónsson, FH, Einar Sigurðsson, FH, 13 landsleikir, Karl Jóhannsson, KR, Rut Guðmundsdóttir, Ármanni, Sigríður Lúthersdóttir, Ármanni, 11 landsleikir, Birgir Björnsson, FH, og Karl G. Benediktsson, Fram, 10 landsleikir.
 
Merkið góða var sett á oddfána, sem mótherjum landsliðsins fengu afhenta fyrir landsleiki.


Merkið var ekki sett á landsliðsbúninga, en íslenska landsliðið eins og landslið allra Norðurlandanna léku með fána sína á brjósti. Merkið var komið á brjóstvasa á jökkum landsliðsmanna Íslands á HM í Danmörku 1978 og byrjað var að setja merkið á keppnisbúninga 1985 og lék landsliðið með merkið á HM í Sviss 1986, þar sem sjötta sætið náðist. 

Nýtt merki HSÍ.

Nýja merkið, sem er ekki til að hrópa húrra fyrir, mun ekki fara vel á keppnisbúningi. Það er byggt upp á stöfunum; HSÍ. Stafirnir síðan klipptir og skornir til, þannig að afraksturinn er eins og illa reytt hænurassgat. Merkið verður blátt eða hvítt, eftir í hvaða lit keppnispeysur eru. Hér á mynd (fyrir neðan) af Óðni Þór Ríkharðssyni, má gera sér í hugarlund hvernig nýja merkið kemur út, í staðinn fyrir það gamla. Það myndi ekki passa vel við hliðina á merki, stjörnu, Arionbanka.

Óðinn Þór Ríkharðsson landsliðsmaður í handknattleik með gamla merki HSÍ á búningum í leik við Grikki í vor. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Ég og fjölmargir handknattleiksunnendur, sem hafa haft samband við mig út af merkjabreytingunni, skorum á HSÍ að kalla gamla merkið aftur til leiks. Það á virðingu skilið; merki Frumherjanna!

Kveðja,
Sigmundur Ó. Steinarsson
.

 

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -