„Það kom skemmtilega á óvart að vera kallaður inn í hópinn núna þótt það hafi lengi verið markmið að komast í hópinn einn góðan veðurdag,“ sagði Andri Már Rúnarsson í samtali við handbolta.is í morgun þegar hann var að stíga inn á sína fyrstu æfingu með A-landsliðinu í handknattleik sem fram fór í Safamýri. Andri Már er eini nýliðinn í 20 manna æfingahópi Snorra Steins Guðjónsson landsliðsþjálfara fyrir Evrópumótið sem fram fer í næsta mánuði í Þýskalandi.
Andri Már gekk til liðs við Leipzig í Þýskalandi í sumar eftir að hafa gert það gott með bronsliði Íslands á HM 21 árs landsliða nokkru áður. Andri Már er 22 ára gamall og samdi fyrir um mánuði við Leipzig til ársins 2026 í stað árs samnings sem var fyrir hendi.
Vera svolítið ungur og vitlaus
„Það er mikill heiður að vera vera valinn og fá að taka þátt í æfingunum með liðinu næstu daga. Markmiðið er að gera sitt besta. Ég ætla að koma á fullu inn í æfingarnar, koma með dínamik inn, vera svolítið ungur og vitlaus,“ sagði Andri Már léttur í bragði og skal engan undra.
„Ég fíla hraðan handbolta eins og Snorri vill að landsliðið leiki. Mér líður best í þannig bolta.“
Teipar ökklann og bítur á jaxlinn
Síðar sama daginn og Andri Már fékk símtalið frá landsliðsþjálfaranum um valið sneri hann sig á ökkla.
„Það var ekkert gaman að misstíga sig sama daginn og maður fékk kallið frá landsliðsþjálfaranum en úr þeirri staðreynd varð að vinna. Eina sem var til bragðs taka var að ná heilsu sem fyrst. Það var reyndar ekki til þess að hjálpa upp á sakirnar að við áttum þrjá leiki á einni viku. Útlitið er betra með ökklann með hverjum deginum sem líður. Aðalmálið er að teipa ökklann vel og bíta á jaxlinn,“ sagði Andri Már Rúnarsson og var þar með rokinn inn á sína fyrstu landsliðsæfingu á gamla heimavellinu í Safamýri en Andri Már lék með Fram leiktíðina 2020 til 2021 en þá var félagið með bækistöðvar í íþróttahúsinu í Safamýri.
EM í handknattleik karla hefst með tveimur leikjum 10. janúar í Düsseldorf í Þýskalandi og stendur til 28. janúar. Leikir Íslands í C-riðli EM í München: 12.jan.: Ísland – Serbía, kl. 17. 14.jan.: Ísland – Svartfj. land, kl. 17. 16.jan.: Ísland – Ungv.land, kl. 19.30.