- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kominn er tími til að ráðamenn sýni stuðning í verki

Leikmenn íslenska landsliðsins fagna sigri á Ungverjum á EM fyrir tveimur árum í Búdapest. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Ríflega 86 milljóna króna tap var á rekstri Handknattleikssambands Íslands á síðasta starfsári og ljóst að ekki verið við svo búið til lengri tíma. Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ, sem endurkjörinn var til tveggja ára á þingi HSÍ fyrir ári, segir aðeins tvo kosti koma til álita í stöðunni. Annarsvegar að auka tekjurnar og að skera niður í útgjöldum, þá ekki síst til afreksstarfsins, en vegur þess hefur aukist á síðustu árum. Einnig er lífsnauðsynlegt, ekki aðeins fyrir HSÍ, heldur íþróttahreyfinguna í heild að hið opinbera komi með mikið myndarlegri hætti að stuðningi við afrekssjóð ÍSÍ en nú er gert. Tími orða er liðin, tími ákvarðana er runninn upp.

Aldrei fleiri landslið

„HSÍ hefur lagt mikið í afreksstarfið á síðustu árum og uppskeran er farin að skila sér meðal annars í frábærum árangri kvennalandsliðsins okkar svo ekki sé talað um yngri landsliðin. Við höfum aldrei verið með fleiri yngri landslið á stórmótum en á síðustu tveimur árum. Þetta gerist hinsvegar ekki af sjálfu sér,“ sagði Guðmundur þegar handbolti.is hafði tal af honum.

„Segja má að aukinn þungi í afreksstarfinu sé að koma í bakið á okkur þótt finna megi fleiri atriði í rekstrinum sem spili inn í niðurstöðu síðasta árs. En þetta er sú mynd sem við horfum á núna.“

Ráðamenn verða að sýna í verki að ríkið sé tilbúið að leggja mun meira af mörkum en nú er gert og færa hlutina í svipað horf og er á Norðurlöndunum þar sem menn finna virkilega fyrir þeim stuðningi sem er í boði

20 ára landslið kvenna stendur sig frábærlega á heimsmeistaramótinu sem nú stendur yfir í Skopje í Norður Makedóníu þessa dagana. Liðið er komið í hóp 16 bestu og hefur alla burði til að ná enn lengra. Hver leikmaður greiðir 600 þúsund kr. upp í kostnað við að taka þátt. Mynd/HSÍ

Opna augu ráðamanna fyrir ljósinu

Guðmundur segir íþróttahreyfinguna verða að vinna að því með öllum ráðum að opna augu ráðamanna fyrir ljósinu í öllu því afreksstarfi sem unnið er í landinu. Í því sambandi eigi hann ekki aðeins við handknattleikinn heldur hreyfinguna í heild sinni. Mörg sérsambönd standa ekki undir kostnaði við lágmarksþátttöku í alþjóðlegri keppni, sum hafa þurft að draga verulega saman seglin, t.d. Körfuknattleikssambandið. Hjá öðrum standi landsliðsfólk sjálft nánast undir öllum kostnaði við þátttöku í alþjóðlegri keppni.

Gott skref fyrir nærri áratug

„Mjög gott skref var tekið upp úr miðjum síðasta áratug þegar framlög ríkisins til afrekssjóðs voru hækkuð úr 100 milljónum upp í 400 milljónir á nokkrum árum. Síðan heftur aðeins gerst að framlagið var lækkað. Framlag ríkisins í afrekssjóð sem er til skiptanna fyrir öll sérsambönd ÍSÍ var lækkað í 390 milljónir 2020 og hefur síðan verið óbreytt að krónutölu. Á síðustu fimm árum hefur flug, gisting og annar ferðakostnaður hækkað um tugi milljóna króna auk annars kostnaðar. Við getum auðveldlega sýnt fram á það í okkar bókhaldi.“

Kvennlandsliðið var með HM á síðasta ári. Það var fyrsta stórmót kvennalandsliðsins í 11 ár. Í vor tryggði kvennalandsliðið sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins í fyrsta skipti í 12 ár. Mynd/EPA

Ekkert auðvelt að koma til baka

Guðmundur segir það hafa komið skýrt fram í máli sínu og fleiri stjórnenda HSÍ á þingi sambandsins í síðustu viku að allra leiða verði leitað til að ná endum saman, það geti komið niður á afreksstarfinu eins og öðru.

„Eins sárt og það kann að hljóma þá getur niðurskurður komið niður á árangri. Það verður ekkert auðvelt að komast aftur á það stig sem við erum á núna ef við verðum að stíga skref til baka. Hætt er við að það kosti enn meiri peninga,“ segir Guðmundur og leggur áherslu á að ráðamenn þjóðarinnar átti sig á gildi öflugs íþróttastarfs og að því sé gert álíka hátt undir höfði og gert er hjá frændþjóðum okkar á Norðurlöndunum.

Leikmenn íslenska karlalandsliðsins þakka fyrir stuðninginn í einum af leikjum sínum á EM 2024. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Ónógur stuðningur

„Við sjáum sundfólkið okkar sem stóð sig frábærlega á Evrópumótinu. Það og Sundsambandið fékk tvær eða þrjár milljónir til þess að standa undir undirbúningi og þátttöku. Ungt afreksfólk í golfi reiðir sig á sérstakan sjóð, Forskot, til þess að sækja fram og freista þess að verða afrekssfólk í sinni íþrótt því ef þá ætti að treysta á stuðning úr afrekssjóði yrðu því lítt ágengt og ætti ekki möguleika á að láta reyna á hæfileika sína,“ segir Guðmundur og bætir við að framlag ríkisins til afreksmála sé lágt, t.d. í samanburði við framlag til menningar og lista.

Talað í milljörðum

„Það kom einnig fram á þinginu hjá okkur í vikunni samanburður íþrótta við menningu og listir og framlög ríkisins. Með því að opna á þá umræðu vorum við ekki að draga úr menningu og listum enda njótum við hennar eins og aðrir. Þegar kemur að umræðu um menningu og listir er talað í milljörðum. Á sama tíma renna 390 milljónir frá ríkinu í allt afreksstarf íþróttahreyfingarinnar í landinu. Bara það sem lagt er í rekstur Hörpu frá ríkinu er tvöföld eða þreföld sú upphæð.

Það verður ekkert auðvelt að komast aftur á það stig sem við erum á núna ef við verðum að stíga skref til baka.

20 ára landslið karla tekur þátt í Evrópumótinu í Slóveníu í næsta mánuði. Mynd/HSÍ

Ráðamenn átti sig á gildi íþrótta

Ráðamenn verða horfa á heildarmyndina og átta sig á gildi íþrótta sem oft er rætt um á hátíðarstundum. Nú er kominn tími til að sýna það í verki. Ég veit að ÍSÍ hefur verið að vinna í þessu en það er kominn tími til þess að fá ákvarðanir. Ráðamenn verða að sýna í verki að ríkið sé tilbúið að leggja mun meira af mörkum en nú er gert og færa hlutina í svipað horf og er á Norðurlöndunum þar sem menn finna virkilega fyrir þeim stuðningi sem er í boði,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson formaður Handknattleikssambands Íslands í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -