- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Komst yfir hræðsluna og naut þess að spila

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Tilfinningin var ótrúlega góð að mæta aftur til leiks með landsliðinu. Ég var reyndar bangin í upphafi við dúkinn á gólfinu, minnug þess að ég sleit krossbandið í leik á svipuðu gólfefni og hér. Ég komst fljótt yfir hræðsluna og þá naut ég þess að spila,“ sagði Steinunn Björnsdóttir landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is í kvöld eftir að hún hafði leikið sinn fyrsta landsleik í 13 mánaða fjarveru eftir að hafa slitið krossband í hné. Aðeins eru 12 mánuðir síðan hún gekkst undir aðgerð á hnénu.


Steinunn skoraði tvö mörk og lék talsvert í vörninni einnig þegar íslenska landsliðið tapaði með sex marka mun fyrir Svíum, 29:23, í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik á Ásvöllum í kvöld.

Á eitthvað í land ennþá

„Mér leið annars vel þótt ég finni vel að ég á eitthvað í land í ýmsum atriðum. En það kemur. Fyrst og fremst er gaman að vera með í hópnum og taka þátt í þessu verkefni með stelpunum,“ sagði Steinunn sem fékk tækifæri snemma í leiknum.

Gaman að glíma við Svíana

„Ég fékk tækifæri fyrr í leiknum í kvöld en ég átti von á og var líka í stærra hlutverki. Ég átti allt eins von á því að verða ekki valin. Ofan á annað var gaman að glíma við sænsku leikmennina sem eru hrikalega sterkir. Það var gaman að að máta sig við þær,“ sagði Steinunn ennfremur.

Öðruvísi leikur framundan

Framundan hjá íslenska landsliðinu er ferðalag til Serbíu á morgun. Æfing þar á föstudaginn og úrslitaleikur um farseðli á EM á laugardaginn í Zrenjanin. „Það verður allt öðruvísi leikur en þessi sem var hér í kvöld. Serbneska liðið er aðeins þyngra en það sænska og leikur ekki eins hratt. Ég er spennt fyrir þeim leik. Vonandi verður leikurinn skemmtilegur í Serbíu með sanngjörnum dómurum. Þá er aldrei að vita hvað gerist.


Ég hefði viljað sleppa með þriggja marka tap í kvöld. Við gerðum margt gott en eitt og annað hefði mátt vera betra, nokkur smáatriði sem við getum lagað og það er ekki slæm tilfinngin. Mér finnst þessi leikur vera að mörgu leyti ágætt veganesti. Við hefðum alveg getað lent á vegg. Maður hefur tekið þátt í svoleiðis leikjum,“ sagði Steinunn Björnsdóttir, landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is á Ásvöllum í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -