- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kóngur vill sigla en byr má ráða

Lítrík verðlaunaafhending í Lanxess Arena í Köln á sunnudaginn. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -
 • Eftir nokkurra ára fjarveru var ég á meðal þeirra nærri 20 þúsunda fólks sem sótti heim Köln í þeim tilgangi að fylgjast með úrslitaleikjum Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla um nýliðna helgi. Árum saman var ég fastagestur. Síðan tók covid upp á að fara eins og eldur í sinu um heiminn. Fjölmiðlamenn jafnt sem áhorfendur voru ekki velkomnir í Lanxess Arena í Köln 2020 og 2021.
 • Við ósköpin tapaði ég niður þræðinum og hafði ekki rænu á að taka hann upp aftur fyrr en á vordögum. Þá var reynt á hvort Handknattleikssamband Evrópu hefði einhvern áhuga á að fá kallskúnk frá smámiðli norður í ballarhafi í heimsókn.
 • Skemmst er frá því að segja að ennþá á kallskúnkurinn einhverja vini. Aðgangur var alltént gefinn og ber að þakka fyrir það. Vænt þótti mér um að starfsmaður EHF, sem veit af breyttum högum mínum frá því að við hittumst síðast í raunheimum fyrir fimm árum, sá ástæðu til að bjóða mig velkominn þegar leiðir okkar lágu saman fyrir tilviljun.
 • Köln var söm við sig á þessum tíma árs, sól, blíða og gróðurofnæmi. Rigningin sem stundum er kvartað yfir var víðsfjarri. Klárað var í bili úr tönkunum í vikunni á undan. Lanxess Arena pakkfull áhugafólki um handknattleik þótt sannarlega hafi skort á stemninguna sem alltaf fylgir stuðningsmönnum pólska meistaraliðsins og eða ungverska liðsins Telekom Veszprém. Með tveimur þýsku af fjórum í undanúrslitum var stemnigin dannaðri, eins og sagt var. Danir reyndu að gera sitt besta til að halda uppi dampi.
 • Í merktu sæti í áhorfendastúku fjölmiðla hafði ég Argentínumann til vinstri handar og Færeying til hægri handar. Prýðisfélagar. Færeyinginn þekkti ég fyrir. Sómapiltur sem ég hef verið í sambandi við af og til síðasta árið síðan við fylgdumst með okkar liðum á HM 21 ár landsliða í Berlín fyrir nærri ár.
 • Um tilgang Argentínumannsins með verunni í Lanxess Arena hef ég efasemdir út frá sjónarhóli fréttamennsku. Ekki skrifaði hann hjá sér einn staf né gerði sig líklegan til þess að freista þess að ná viðtölum að leikjum loknum. Helst tók hann upp símann og myndaði þegar leikmenn voru kallaðir fram á leikvöllinn eða fimleika- og söngatriði voru á gólfi keppnishallarinnar. En ábúðarmikill var Argentínumaðurinn. Hann benti mér á, þegar honum þótti ég plássfrekur í þrengslunum, að hægt væri að leigja læstan skápa í keppnishöllinni til að geyma fartölvuna.
 • Því miður gekk ekki sem best hjá Íslendingaliðinu, SC Magdeburg. Gísli Þorgeir Kristjánsson, Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon voru í eldlínunni með liðinu sem stefndi á sigur í Meistaradeildinni annað árið í röð. Liðið tapaði báðum leikjum og helgin varð einhverjum ekkert minnistæðari en hver önnur helgi ársins.
 • Ekki er á vísan róið í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar nú frekar en áður. Í gegnum árin hefur oft „ólíklegasta“ liðið unnið. Má þar nefna Flensburg 2014, Kielce 2016, Vardar 2017 og jafnvel 2019 og hver reiknaði með Nantes í úrslitaleiknum 2018? Mér er enn í minni þegar spekingur einn sagði fyrir undanúrslitaleikina 2016 að hverfandi líkur væru á sigri Kielce í keppninni.
 • Að þessu sinni vann þó ekki „ólíklegasta“ liðið keppnina. Litlu mátti þó muna. Danska liðið Aalborg tapaði naumlega í úrslitaleik fyrir Barcelona sem var annað af tveimur liðum sem talið var sennilegast til að standa uppi sem sigurvegari.
 • Eins og í „gamla daga“ voru margir Íslendingar á leikjum úrslitahelgarinnar. Talsvert var um fjölskyldufólk, vini, kunningja og systkini sem ferðuðust saman til þess að sjá rjómann af bestu handknattleiksmönnum Evrópu reyna með sér. Þátttaka íslenskra handknattleiksmanna hefur örugglega dregið fleiri að en ella. Sumir segja vettvanginn vera uppgjörshátíð íslensks handknattleiksfólks. E.t.v. er það of djúpt í árinni tekið en víst er sumir telja sig vart menn með mönnum nema að hafa verið í Köln um úrslitahelgina.
 • Síðast en ekki síst er gott að vita hvað Íslendingar hafa það gott um þessar mundir sem endurspeglast m.a. í hversu margir hreiðruðu um sig í betri stúkunum, VIP, í Lanxess Arena til fylgjast með leikjunum.
 • Hvort ég verð í Köln að ári þegar fjögur bestu handknattleikslið karla reyna með sér skal ósagt enda stöðvar ekkert tímans þunga nið. Eins og kall einn á Ströndum sagði þegar hann sat fastur í landi vegna veðurs; kóngur vill sigla en byr má ráða.

Ívar Benediktsson, [email protected]

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -