- Auglýsing -
- Úkraínumaðurinn Igor Kopyshynskyi sem leikur með handknattleiksliði Hauka stendur fyrir söfnun fyrir börn í Úkraínu. Þeir sem vilja leggja söfnun hans lið er bent á eftirfarandi upplýsingar: Rkn: 0511-14-017421 – Kt: 260291-3949.
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, er í liði 20. umferðar frönsku 1. deildarinnar í handknattleik sem birt var í upphafi vikunnar. Donni skoraði sjö mörk í 10 skotum þegar lið hans vann Limoges, 33:27, útivelli. Donni fór á kostum í leiknum eins og samherji hans William Accambray sem einnig er í liði 20. umferðar. Þetta er í annað sinn á keppnistímabilinu sem Donni er valinn í lið umferðarinnar.
- Númer 8 verður ekki á keppnispeysum leikmanna Barcelona í framtíðinni. Félagið hefur ákveðið þetta um leið og það heiðrar Víctor Tomás sem lék í 18 ár með félaginu. Tomás lagði keppnisskóna á hilluna vorið 2020.
- Þjófar létu á dögunum greipar sópa á heimili danska landsliðsmannsins Mikkel Hansen og eiginkonu hans Stephanie Gundelach. Tveir menn komu á heimili þeirra hjóna í París á dögunum þegar Hansen var fjarverandi en frúin var heima. Þjófarnir komu undir fölsku flaggi. Þeir sögðust vera komnir í þeim tilgangi að lagfæra eitthvað sem í ólagi var í húsinu. Eftir að þjófarnir voru farnir komst Gundelach m.a. að því að þeir höfðu látið greipar sópa, m.a. í skartgripasafni hennar. Verðmæti þýfisins er talið vera um 60.000 evrur, jafnvirði tæpra átta milljóna króna. Franska íþróttablaðið L’Equipe greinir frá.
- Handknattleikskonan Brynhildur Kjartansdóttir hefur fengið félagaskipti frá Stjörnunni yfir til síns gamla félags, ÍR. Skiptingin gekk í gegn 11. mars eftir því sem fram kemur á vef HSÍ.
- Danski landsliðsmarkvörðurinn Niklas Landin var valinn íþróttamaður borgarinnar Kiel í Þýskalandi þar sem hann hefur staðið vaktina í marki heimaliðsins, THW Kiel, með miklum sóma á undanförnum árum.
- Auglýsing -