Íþróttafélagið Kórdrengir sækir fast að fá að taka sæti í Grill66-deild karla í handknattleik á komandi leiktíð. Hinrik Geir forsvarsmaður handknattleiksliðs Kórdrengja staðfestir þá ætlan við handbolta.is í dag. Segist hann vænta svars frá Handknattleikssambandi Íslands fljótlega.
Fordæmi fyrir að taka inn ný lið í Grill66-deildina hafi verið gefið þegar Berserkir fengu að taka sæti í Víkings þegar síðarnefnda liðið fluttist skyndilega upp í Olísdeildina við brotthvarf Kríu í síðasta mánuði.
Kórdrengir hafa ekki sent lið til keppni á Íslandsmótinu fram til þessa en lið félagsins hefur gert það gott á knattspyrnusviðinu. Eftir því sem næst verður komist eru engin tengsl á milli knattspyrnuliðsins og væntanlegs handknattleiksliðs önnur en nafnið eitt.
Hinrik Geir segir að liði Kórdrengja standi til boða að taka þátt í 2. deild. Það sé hinsvegar mat hans og annarra sem að liðinu standa að það eigi fullt erindi í Grill66-deildina. Mönnum sé full alvara að búa til gott lið sem eigi erindi í deildina. Ekki sé verið að tjalda til einnar nætur.
Hinrik Geir vildi á þessari stundu ekki greina frá hverjir muni skipa lið Kórdrengja né hver verði þjálfari. Eins var hann ófáanlegur til að upplýsa hvar liðið ætli að leika heimaleiki sína á komandi leiktíð en það liggi þó fyrir. Ljóst væri þó að liðið myndi æfa á ýmsum öðrum stöðum en í því húsi sem tryggt hafi verið sem heimavöllur fyrir kappleiki. Upplýsinga megi vænta á næstunni.
„Vonandi kemur HSÍ til móts við óskir okkar um sæti i Grilldeildinni. Við bíðum bara eftir svari frá HSÍ. Ég vona að það berist á næstu dögum,“ sagði Hinrik Geir við handbolta.is í dag.