68. ársþing Handknattleikssambands Íslands verður haldið á morgun á Grand Hóteli. Jón Halldórsson og Ásgeir Jónsson eru einir í kjöri til formanns og varaformanns sambandsins. Taka þeir við af Guðmundi B. Ólafssyni og Reyni Stefánssyni sem gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Guðmundur hefur verið formaður HSÍ í 12 ár. Aðeins Guðmundur Á. Ingvarsson hefur verið lengur formaður HSÍ, frá 1996 til 2009.
Kosið á milli Ásgeirs og Kristins
Kosið verður á milli Ásgeirs Sveinssonar og Kristins Björgúlfssonar til formennsku landsliðsnefndar karla til tveggja ára. Páll Þórólfsson sem verið hefur formaður síðustu ár sækist ekki eftir sæti í stjórninni á nýja leik.

Inga Lilja og Bjarni sjálfkjörin
Inga Lilja Lárusdóttir er ein í framboði til formanns fræðslu og útbreiðslunefndar og Bjarni Ákason fékk heldur ekki mótframboð til áframhaldandi til formennsku markaðs- og kynningarnefndar. Inga Lilja hefur setið í stjórn HSÍ í nokkur ár en Bjarni kom inn í stjórnina fyrir ári.
Þrjú í varastjórn
Kosið er í varastjórn til eins árs. Haddur Júlíus Stefánsson, Harpa Vífilsdóttir og Helga Birna Brynjólfsdóttir sækjast eftir setu í varastjórn. Þau verða kjörin í stað Ragnars Lárusar Kristjánssonar, Alfreðs Finnssonar og Kristjáns Gauks Kristjánssonar.
Fjögur kjörin fyrir ári
Sigurborg Kristinsdóttir, gjaldkeri HSÍ, Guðríður Guðjónsdóttir, formaður landsliðsnefndar kvenna, Kristín Þórðardóttir, formaður mótanefndar HSÍ, Ólafur Örn Haraldsson, formaður dómaranefndar HSÍ, voru kjörin til tveggja ára á þingi HSÍ fyrir ári.
Mikið verk bíður
Ljóst er að verk bíður nýrra stjórnar. HSÍ var rekið með nærri 130 milljóna kr tapi 2023 og 2024. Samkvæmt fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir ríflega 20 milljóna kr rekstrarafgangi 2025. Meginhluta tapsins 2023 og 2024 má rekja til vaxandi kostnaðar við landsliðin og uppbyggingu Handboltapassans.