„Leikirnir tveir við Grikki voru áþekkir. Við byrjuðu leikinn í dag mjög vel, gáfum strax tóninn, fengum sannkallaða óskabyrjun með fulla Laugardalshöll af fólki,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla í samtali við handbolta.is eftir sigur íslenska landsliðsins á Grikkjum í gær, 33:21. Með sigrinum tryggði íslenska landsliðið sér sæti í lokakeppni EM sem fram fer í Danmörku, Noregi og í Svíþjóð frá 15. janúar til 1. febrúar á næsta ári.
„Eftir góða byrjun þá fannst mér við sigla sigrinum örugglega heim. Reyndar fannst mér lokakaflinn í fyrri hálfleik ekki vera nógu góður. Við hefðum getað verið með mun meira forskot að fyrri hálfleik loknum. Lengst af fannst mér frammistaðan vera einbeitt hjá mínu liði,“ sagði Snorri Steinn en íslenska liðið var sjö mörkum yfir í hálfleik, 16:9. Eftir 25 mínútur stóðu leikar, 15:6.
Ánægður með þá lítt reyndari
Margir af lítt reyndari leikmönnum fengu töluverðan leiktíma Snorri Steinn sagðist vera ánægður með margra þeirra. „Það er alltaf stórt skref fyrir leikmenn að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu. Þannig hefst ferillinn hjá flestum. Leikirnir við Grikki þróuðust þannig að við gátum gefið þeim gott tækifæri.“
Mikilvægt að ná strax EM-sæti
Snorri Steinn sagðist ennfremur vera mjög ánægður með að EM-sæti sé í höfn þegar tvær umferðir eru eftir. Íslenska liðið hefur fullt hús stiga, átta, að loknum fjórum viðureignum af sex.
„Það hefur stundum verið lenska að skilja eftir stig hér og þar á leiðinni í undankeppninni. Nú er sú ekki raunin. Þessir svokölluðu landsliðsgluggar geta verið erfiðir. Tíminn er skammur og leikmenn eru undir miklu álagi hjá sínum félagsliðum. Þess vegna getur verið snúið fyrir leikmenn að gíra sig vel upp í tvo landsleiki á fáeinum dögum. Okkur hefur tekist það í tveimur síðustu gluggum [nóvember og mars]. Mér fannst það bara vera krafa að innsigla keppnisrétt okkar hér heima fyrir framan fulla höll af fólki,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari.
Lengra viðtal við Snorra Stein er í myndskeiði ofar í þessari grein.
A-landslið karla – fréttasíða.