Íslenska landsliðið í handknattleik karla lauk þátttöku sinni á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla með naumu tapi í hörkuleik fyrir Noregi, 35:33. Íslenska landsliðið sýndi margar sínar bestu hliðar í leiknum en erfiður kafli í upphafi síðari hálfleiks var nokkuð sem liðið átti erfitt með að bíta út nálinni með. Þó tókst að minnka muninn í eitt mark á síðustu mínútum en lengra komust þeir ekki.
Staðan í hálfleik var jöfn, 18:18.
Fyrri hálfleikur var frábær skemmtun. Hraðinn í leiknum var gríðarlega mikill strax frá fyrstu mínútu. Íslenska liðið byrjaði leikinn af miklum eldmóði og skoraði tvö fyrstu mörkin. Áfram var staðan jöfn, mörkin komu nánast á færibandi í öllum regnboganslitum, jafnt úr uppstilltum leik sem hraðaupphlaupum og vítaköstum.
Dómarar leiksins frá Norður-Makedóníu voru slakir og ráku íslensku leikmennina út af fyrir minnstu sakir. Fór svo að Norðmenn náðu þriggja marka forskoti í tvígang, síðast 16:13, þegar skammt var til leiksloka. Íslenskur strákarnir gáfust ekki upp. Héldu áfram að leika sína framliggjandi og ákveðnu vörn og beittu hröðum upphlaupum. Sóknarleikurinn var ákveðinn, hraður og skemmtilegur. Þegar hálfleikurinn var úti var staðan jöfn, 18:18. Arnar Freyr Arnarsson jafnaði metin með öðru marki sínu í leiknum rétt fyrir lokin.
Upphafskafli síðari hálfleiks reyndist íslenska liðinu erfiður. Ýmir Örn Gíslason fékk sína aðra brottvísun fyrir litlar sakir á upphafsmínútunum auk þess sem illa gekk að skora þótt færin væru svo sannarlega fyrir hendi.
Norðmenn komust þremur mörkum yfir, 22:19, eftir sjö mínútur. Ekki voru liðnar tíu mínútur af síðari hálfleik þegar Elliði Snær Viðarsson var kominn með aðra brottvísun á bakið. Róðurinn þyngdist. Norska liðið hélt þriggja marka forskoti sínu og var með fjögurra marka forystu þegar síðari hálfleikur var hálfnaður. Kristian Sæveras hafði tekið við vaktinni í markinu snemma í síðari hálfleik og hann reyndist íslensku strákunum erfiður.
Íslenska liðinu tókst aldrei að vinna sig út úr þeirri erfiðu byrjun sem var á síðari hálfleik þótt þeir reyndu svo sannarlega að gera allt sem þeir gátu. Norðmenn skoruðu nánast úr hverri sókn fyrstu 20 mínútur síðar hálfleiks.
Skyndilega varð breyting á. Íslenska liðinu með Ágúst Elí Björgvinsson í broddi fylkingar tókst að stöðva þrjár sóknir í röð og skyndilega var munurinn kominn niður í tvö mörk og Ólafur Andrés Guðmundsson kom muninum niður í eitt mark, 31:30, þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Elliði Snær var þá kominn með rautt spjald fyrir þriðju brottvísun. Þegar
Ágúst Elí varði frá Kevin Gulliksen fjórum mínútum fyrir leikslok gafst möguleik á jafna metin. Því miður lánaðist það ekki. Norðmenn svöruðu um hæl og komust tveimur mörkum yfir, 33:31, þegar tæpar þrjár mínútur voru til loka leiksins. Þegar Arnari Frey brást bogalistin af línunni tveimur mínútum fyrir leikslok virtust öll sund vera að lokast fyrir íslenska liðið.
Sander Sagosen skoraði úr vítkasti í framhaldinu og kom Noregi þremur mörkum yfir. Þar með voru úrslitin ráðin þótt íslensku leikmennirnir hafi ekki lagt árar í bát fyrr en í fulla hnefana.
Mörk Íslands: Bjarki Már Elísson 6/3, Ólafur Andrés Guðmundsson 5, Elliði Snær Viðarsson 4, Sigvaldi Björn Guðjónsson 4, Gísli Þorgeir Kristjánsson 3, Ómar Ingi Magnússon 3/2, Arnar Freyr Arnarsson 2, Ýmir Örn Gíslason 1, Kristján Örn Kristjánsson 1, Magnús Óli Magnússon 1, Oddur Grétarsson 1.