- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kría flaug upp um deild – myndskeið

Lið Kríu sem vann sér sæti í Olísdeildinni eftir umspilsleiki við Víkinga byrjun sumars. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Kría leikur í Olísdeild karla í handknattleik karla á næstu leiktíð. Kría vann Víking öðru sinni í úrslitum umspilsins um sæti í Olísdeildinni í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í kvöld, 20:17, og fylgir þar með HK eftir upp í deild þeirra bestu. Krían flýgur hátt um þessa mundir. Liðið var nýliði í Grill 66-deildinni á leiktíðinni, gerði sig gildandi í deildinni, en hefur leikið andstæðinga sína grátt í úrslitakeppninni og nýtt alla sína reynslu því margir reyndir handknattleiksmenn skipa liðið.

Kría vann einnig fyrri leikinn, 32:25, í Víkinni á laugardaginn.


Víkingar sem töpuðu aðeins tveimur leikjum í Grill 66-deildinni á leiktíðinni sitja eftir með sárt ennið en sannarlega reynslunni ríkari.

Engu var líkara framan af leik en að leikmenn hefðu ekki áhuga á að skora mörk. Liðnar voru nærri átta mínútur þegar fyrsta markið var skorað í stemningunni í Hertzhöllinni í kvöld en uppselt var. Þ.e. eins margt var í húsinu og leyfilegt er um þessar mundir. Þess utan stóð hópur frammi á gangi og fylgdist við glugga inn í íþróttasalin.


Hópar stuðningsmanna beggja liða létu vel í sér heyra og settu skemmtilegan svip á leikinn.


Baráttan var mikil og ljóst að taugarnar voru þandar til hins ítrasta. Víkingar urðu að vinna til að fá oddaleik en Kríumenn voru greinilega á þeirri skoðun að ljúka einvíginu að þessu sinni. Litið var skorað í fyrri hálfleik og aðeins þrettán mörk þegar gengið var til búningsherbergja, 7:6 fyrir Kríu.


Krían náði hinsvegar hressilega undirtökunum í byrjun síðari hálfleik. Sóknarleikurinn var í handskolum hjá Víkingum og þeir skoruðu aðeins þrjú mörk á fyrsta stundarfjórðungi fyrri hálfleik og voru sex mörkum undir, 14:9, þegar Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari liðsins tók sitt þriðja og síðasta leikhlé og freistaði þess að berja í brestina.

Hvorki gekk né rak hjá Víkingum og þegar tíu mínútur voru til leiksloka var Kría fimm mörkum yfir, 15:10. Staðan Víkinga hefði verið enn verri en ella ef Sverrir Andrésson markvörður þeirra hefði ekki verið vel á verði.


Reynsla fleytti Kríu mönnum áfram með reynsluleysið fór með leikmenn Víkinga sem vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Sigurður Ingiberg Ólafsson, markvörður Kríu, lék einnig Víkinga grátt, annan leikinn í röð.

Mörk Kríu: Kristján Orri Jóhannsson 9, Daði Gautason 3, Aron Valur Jóhannsson 2, Filip Andonov 2, Alex Viktor Ragnarsson 2, Viktor Andri Jónsson 2.
Mörk Víkings: Arnar Steinn Arnarsson 5, Jóhannes Berg Andrason 4, Hjalti Már Hjaltason 3, Arnar Huginn Ingason 2, Styrmir Sigurðsson 2, Guðjón Ágústsson 1.
ath. reyndar segir á skýrslu á vef HSÍ að Hjalti Már hafi skorað 33 mörk í leiknum. Harla ósennilegt er að svo hafi verið. Meðan vafi leikur á þá eru skráð þrjú mörk á Hjalta hér að ofan en verður leiðrétt ef rétt reynist að hann hafi skorað 33 mörk.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -