Valur er kominn í 16-liða úrslit Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik eftir annan sigur á Kristianstad HK í 32-liða úrslitum í Kristianstad Arena í dag, 29:24. Samanlagt vann Valur rimmu liðanna, 56:48. Frábær varnarleikur og stórleikur Hafdísar Renötudóttir markvarðar lagði grunn að sigrinum en Valur náði mest átta marka forsoti í síðari hálfleik, 27:19, eftir að hafa verið marki yfir í hálfleik, 15:14.
Fyrri hálfleik var jafn og var svo nánast á öllum tölum. Valur náði tvisvar tveggja marka forskoti, 9:7, og 15:13.
Valsliðið fór á kostum í síðari hálfleik í varnarleikurinn var afar góður. Leikmenn Kristianstad léku sig í þrot hvað eftir annað. Ef þeim tókst að koma skoti á markið var Hafdís markvörður vel vakandi reyndar eins og í fyrri hálfleik einnig þegar varnarleikurinn var lakari.
Jafnt og þétt bætti Valsliðið við forskot sitt. Um miðjan síðari hálfleik var fimm marka munur, 22:17. Eins og áður sagði þá komst Valur mest átta mörkum yfir. Síðastu mínúturnar losnaði aðeins um leikinn þegar Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari hleypti óreyndari leikmönnum að.
Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði tvö mörk í síðari hálfleik fyrir Kristianstad. Berta Rut Harðardóttir skoraði eitt mark. Frøydis Wiik Seierstad var markahæst með sjö mörk.
Sjá einnig: Stoltur af liðinu og liðsheildinni sem skóp sigurinn
Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 7/5, Lovísa Thompson 7, Elín Rósa Magnúsdóttir 5, Ásdís Þóra Ásgeirsdóttir 4, Sigríður Hauksdóttir 2, Thea Imani Sturludóttir 2, Hafdís Renötudóttir 1, Hildur Björnsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 15, 39,4% – Elísabet Millý Elíasardóttir 1, 50%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í Kristianstad Arena í textalýsingu hér fyrir neðan.