- Auglýsing -
Handknattleiksþjálfarinn Kristinn Guðmundsson hefur framlengt samning sinn við færeyska handknattleiksfélagið Eiðis Bóltfelag (EB) til ársins 2024. Frá þessu er sagt á heimasíðu félagsins í dag.
Kristinn tók við þjálfun hjá EB sumarið 2021 og stýrði kvennaliði félagsins sem nýliðum í úrvalsdeildinni á síðasta keppnistímabili og er áfram við stjórnvölin á nýbyrjuðu tímabili.
Einnig er Kristinn þjálfari yngri iðkenda hjá félaginu. Í tilkynningu félagsins segir að mikil ánægja ríki með starf Kristins.
Eftir Kristni er haft að hann hlakki til að halda áfram að byggja ofan á starfið sem innt hefur verið af hendi undanfarið ár.
Auk þess að þjálfa hjá EB var Kristinn í vor og sumar þjálfari U16 ára landsliðs stúlkna í Færeyjum. Kom hann með liðið hingað til lands í vor áður en það tók þátt í Opna Evrópumótinu sem haldið var samhliða Partille Cup í Svíþjóð.
Kristinn er annar tveggja íslenskra þjálfara í Færeyjum um þessar mundir. Hinn er Jakob Lárusson sem þjálfar kvennalið Kyndils í Þórshöfn.
handbolti.is nýtur ekki opinbers rekstrarstuðnings.
- Auglýsing -