Janus Daði Smárason landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður ungversku bikarmeistarana Pick Szeged er ekki með slitið krossband í hné eins og grunur lék á. Hann staðfestir tíðindin í samtali við RÚV í dag.
Liðband í vinstra hné rifnaði og reiknar Janus Daði með að verða frá keppni í 10 til 12 vikur, þ.e. að allt að þrjá mánuði. Hann ætti þar með að geta gefið kost á sér í landsliðið fyrir EM sem fram fer í janúar.
Eftir ítarlega skoðun lækna hefur það verið staðfest að krossbandið slitnaði ekki þegar Janus Daði rann til í leik með Pick Szeged á sunnudaginn. Slitið krossband þýðir yfirleitt árs fjarveru frá keppnisvellinum.
Þungu fargi er eðlilega létt af Janus Daða og alveg örugglega einnig af landsliðsþjálfaranum, Snorra Steini Guðjónssyni.
„Krossbandið er heilt, þannig það eru mjög jákvæðar fréttir. Það er auðvitað ekkert gaman að meiðast, en 8-12 vikna fjarvera vegna meiðsla í handbolta er enginn dauðadómur,“ segir Janus Daði í áðurnefndu viðtali við RÚV.
Frétt RÚV: Verður frá í 10-12 vikur og er feginn að ekki fór verr
Vonast til að krossband hafi sloppið – ekkert hefur þó verið útilokað ennþá
Janus Daði virtist hafa meiðst illa