- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kukobat fór á kostum – Þórsarar skelltu Valsmönnum

Jovan Kukobat, markvörður Þórs, átti stórleik á móti Val. Mynd/Skapti Hallgrímsson
- Auglýsing -

Leikmenn Þórs Akureyrar eru svo sannarlega ekki af baki dottnir í Olísdeild karla þótt syrt hafi álinn eftir því sem á keppnistímabilið hefur liðið. Þeir ráku af sér slyðruorðið í dag og skelltu leikmönnum Vals á sannfærandi hátt í Íþróttahöllinni á Akureyri í 16. umferð Olísdeildar karla, 25:22, eftir að hafa verið marki undir í hálfleik, 11:10. Jovan Kukobat, markvörður Þórs, fór á kostum, og lék leikmenn Vals grátt, hreinlega kvað þá í kútinn.


Þór er áfram í 11. sæti en er aðeins tveimur stigum á eftir Gróttu sem situr í 10. sæti með 10 stig. Aukin spenna hljóp þar með í botnbaráttu Olísdeildar með þessum sigri Þórsara.


Valur skoraði fyrsta mark síðari hálfleiks en Þór svaraði með sjö mörkum í röð og náði fimm marka forskoti, 17:12. Eftir það gáfu Þórsarar aldrei forskotið eftir og unnu sannfærandi og sætan sigur sem var svo sannarlega bæði kærkominn og verðskuldaður.


Kukobat, markvörður, lét svo sannarlega til sín taka í marki Þórs. Hann varði 17 skot og var með liðlega 43% hlutfallsmarkvörslu. Hann var besti maður vallarins ásamt Úkraínumanninum Ihor Kopyshynskyi.
Valsmenn, sem léku án Magnúsar Óla Magnússonar sem er meiddur í nára, náðu sér aldrei á strik, ekki síst í síðari hálfleik. Markvarslan var í molum og sóknarleikurinn var heldur ekki sannfærandi.

Mörk Þórs: Ihor Kopyshynskyi 9/3, Gísli Jörgen Gíslason 4, Karolis Stropus 3, Þórður Ágústsson 3, Arnþór Gylfi Finnsson 2, Garðar Már Jónsson 2, Sigurður Kristófer Skjaldarson 1, Hafþór Ingi Halldórsson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 17, 43,6%.
Mörk Vals: Róbert Aron Hostert 4, Finnur Ingi Stefánsson 3/1, Einar Þosteinn Ólafsson 2, Anton Rúnarsson 2/1, Þorgils Jón Svölu-Baldursson 2, Stiver Tobar Valencia 2, Þorgeir Bjarki Davíðsson 2, Arnór Snær Óskarsson 1, Vignir Stefánsson 1, Alexander Örn Júlíusson 1, Tjörvi Týr Gíslason 1, Tumi Steinn Rúnarsson 1.
Varin skot: Martin Nagy 6, 28,6% – Einar Baldvin Baldvinsson 3, 25%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Staðan í Olísdeild karla.

Ihor Kopyshynskyi, Þór Akureyri. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -