Norska handknattleikskonan Amanda Kurtovic leikur ekki meira með ungverska stórliðinu Györi, að sinni að minnsta kosti. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér í morgun. Henni er frjálst að leita að leigusamningi hjá öðru liði nú þegar. Það lið má þó ekki vera þátttakandi í Meistaradeild Evrópu. Kurtovic verður ekki leyst fullkomlega undan samningi hjá Györ. Samningur hennar og Györi gildir fram á mitt ár 2022.
Kurtovic hefur verið í herbúðum Györ frá 2019 en fengið fá tækifæri á þessu keppnistímabili sem er ástæða þess að hún fær tækifæri á að róa á önnur mið. Kurtovic hefur átt erfitt uppdráttar eftir að hún sleit krossband fyrir tveimur árum.
Kurtovic hefur um árabil átt sæti í norska landsliðinu en er ekki í 16-manna hópnum sem Þórir Hergeirsson valdi til þátttöku á Evrópumótinu sem hefst 3. desember. Í viðtali við hlaðvarpsþáttinn Handboltinn okkar í gærkvöld sagði Þórir að ástæðan fyrir því að Kurtovic væri ekki í 16-manna hópnum að þessu sinni væri sú hversu hversu lítið hún hafi leikið með ungverska stórliðinu fram til þessa á tímabilinu.
Af sænsku og króatísku bergi brotin
Kurtovic er 29 ára gömul og fædd í Svíþjóð. Móðir hennar er sænsk en faðir hennar frá Króatíu. Bróðir hennar hefur leikið fyrir yngri landslið Svíþjóðar í knattspyrnu. Þegar Kurtovic var fimm ára flutti fjölskyldan til Sandefjord þar sem faðir hennar var ráðinn þjálfari karlaliðs félagsins. Þar hófst handknattleiksferill Kurtovic. Síðan hefur hún leikið með Nordstrand, Byåsen, Larvik, Viborg, Oppsal, CSM Bucaresti auk Györ síðustu tvö ár. Alls eru landsleikirnir orðnir 118. Með norska landsliðinu hefur Kurtovic unnið fern gullverðlaun, ein silfurverðlaun og ein bronsverðlaun.