- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Lærðum okkar lexíu

Guðmundur Rúnar Guðmundsson, þjálfari Fjölnis, og leikmenn hans eru komni í annað sæti í Grill66-deild. Mynd/Fjölnir-Þorgils G.
- Auglýsing -

„Síðasti leikur við Kríu kenndi okkur mjög margt sem kom okkur vel að þessu sinni,“ sagði Guðmundur Rúnar Guðmundsson, þjálfari Fjölnis, eftir 13 marka sigur liðsins, 34:21, á Kríu í annarri viðureign liðanna í undanúrslitum umspilsins um sæti í Olísdeildinni á næstu leiktíð í Hertzhöllinni fyrr í dag. Eftir viðureign dagsins standa liðin jöfn, hvort hefur einn vinning. Þar af leiðandi kemur til oddaleiks um sæti í úrslitum í Dalhúsum á þriðjudagskvöld.

„Fram að umspilinu höfðum við leikið afar vel og því var leikurinn í Dalhúsum á miðvikudagskvöldið ákveðið sjokk fyrir okkur. Við lærðum af reynslunni,“ sagði Guðmundur Rúnar. Greinilegt var á leik Fjölnis strax frá fyrstu mínútu að leikmenn liðsins voru ekki alveg tilbúnir til að fara í sumarleyfi eftir daginn í dag.

Ekki það sem reiknað var með

„Við löguðum aðeins eitt og annað í okkar leik í dag því Kríuliðið lék ekki eins við og reiknuðum með í fyrstu viðureigninni. Þar af leiðandi vorum við ekki með réttu svörin á miðvikudaginn en vorum með allt á hreinu að þessu sinni,“ sagði Guðmundur en Fjölnisliðið hóf leikinn af miklum krafti í dag og skoraði fyrstu sex mörkin. Svo virtist sem liðsmenn Kríu væru slegnir út af laginu við þessa slæmu byrjun eftir öruggan sigur þeirra í fyrsta leiknum, 27:20.

Sættir sig ekki við tap

„Fjölnisliðið er mjög ungt. Meðalaldurinn er í kringum tvítugt. Þar af leiðandi eru sveiflur í leik liðsins eins og oft er þegar um ung lið er að ræða. Við megum ekki láta gott heita núna. Ég sætti mig ekkert við annað en sigur í oddaleiknum. Við eigum að fara í úrslit umspilsins. Leikurinn í dag sýndi hversu vel við getum leikið þegar menn eru klárir í slaginn frá byrjun. Næst skref að halda þessu áfram,“ sagði Guðmundur Rúnar Guðmundsson, þjálfari karlaliðs Fjölnis í samtali við handbolta.is eftir leikinn í Hertzhöllinni í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -